mánudagur, 11. maí 2009

Alveg eins og í EFTA-málinu

Vitaskuld er merkilegt að ný ríkisstjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar ætli að leggja til við Alþingi að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Látið hefur verið í veðri vaka að það sé sértök nýlunda að ríkisstjórn leggji slíka aðild fyrir þingið, jafnvel óvenjulega lýðræðislegt.

Svo er þó ekki. Nákvæmlega sama aðferð var notuð þegar Ísland sótti um aðild að EFTA árið 1968. Þá lagði ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks fram þingsályktunartillögu þess efnis, til að komast að raun um hvaða kjör byðust. Í athugasemdum við tillöguna kom fram að ríkisstjórnin teldi tímabært „að fá úr því skorið með hvaða kjörum Ísland gæti gengið í EFTA“. (Kannast menn við orðalagið?). En sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu efasemdir um málið.

Fleiri líkindi eru við fortíðina. Fréttablaðið segir frá því að fimm þingmenn VG ætli að greiða atkvæði gegn tillögunni. Í EES-málinu árið 1993 greiddu þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks atkvæði gegn samningnum á þingi en fimm þingmenn Framsóknarflokks, sem voru í stjórnarandstöðu, sátu hins vegar hjá og veittu málinu þannig brautargengi.

Fyrir umsóknina nú skiptir mestu, að ríkisstjórnin sem slík mun standa að henni, verði hún samþykkt á þingi. En varðandi málsmeðferðina koma eigi að síður nokkrar spurningar upp í hugann. Til að mynda þessi: Gera má ráð fyrir að einhverjir stjórnarandstöðuþingmenn muni leggja fram breytingatillögu, til að mynda þess efnis að farið verði í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað munu fimmmenningarnir og hinir félagar þeirra í VG þá gera?