mánudagur, 18. maí 2009

Piran-deilan

Einhverjir hafa haldið því fram að mikilvægt sé fyrir Ísland að vera í samfloti með Króötum þegar - og ef - að því kemur að staðfesta aðildarsamning við Evrópusambandið. Ég hef áður nefnt ýmsar hindranir sem geta mætt ríkjum í flóknu staðfestingarferli ESB-aðildar en 27 ríki þurfa að staðfesta slíka samninga eftir öllum sínum innri kenjum. Áður en farið er af stað í slíka vegferð er því ágætt að kortleggja helstu pytti á leiðinni. Framkvæmdastjórn ESB hefur vissulega fróm áform um að veita Króatíu aðild annað hvort árið 2011 eða 2012, en óvíst er að henni verði að ósk sinni. Slóvenía hefur nefnilega hingað til staðið í vegi fyrir því að hægt sé að ljúka aðildasamningi við Króatíu. Ástæðan er eftirfarandi:

Frá því að gamla Júgóslavía liðaðist í sundur árið 1991 hafa Slóvenar og Króatar deilt um yfirráðin yfir Piran-flóanum. Um er að ræða tuttugu ferkílómetra svæði sem nær frá slóvensku strandborginni Piran og út flóann við Adríahaf. Samkvæmt Badinter-samkomulaginu sem ákvarðaði núverandi landamæri milli fyrrum ríkja Júgóslavíu fengu Slóvenar norðaustur ströndina en Króatar suðurströndina. Í norðvestri er opið alþjóðlegt hafsvæði. Slóvenar hafa alla tíð verið afar óánægðir með þá ákvörðun, enda eru margir Slóvenar búsettir á svæðinu, svo sem í þorpum við árósa Dragonja-árinnar sem féll Króatíumegin eftir stríð. Slóvensk yfirvöld hafa allt frá því ríkið hlaut sjálfstæði í byrjun tíunda áratugarins vaktað alla spilduna þrátt fyrir úrskurð Badinter-nefndarinnar. Króatar hafa sætt sig við tvískiptingu flóans og dalsins upp af honum en Slóvenar gera tilkall til alls svæðisins. Áhugi þeirra á svæðinu er ekki síst tilkominn vegna þess að yfirráð yfir því veitir þeim beinan aðgang að alþjóðlegu hafsvæði en hafsvæði Slóveníu er nú klemmt á milli króatísks og ítalsks yfirráðasvæðis.

Þegar Króatía sótti um aðild að ESB fékk Slóvenía ansi beitt vopn í hendurnar: hefur nú þegar dregið samningagerðina úr hófi fram og jafnframt hótað að standa í vegi fyrir ESB-aðild Króatíu þar til Króatar láti dalinn af hendi.

(Uppfært kl. 21:30 samkvæmt ábendingu)