Nú þegar gjaldþrotahrinan hefur skollið á af fullum þunga eftir þrautavetur og þrassumar er loksins hafin aftur umræðan um skuldavanda heimilanna. Í hruninu ruku skuldir heimilanna upp úr öllu valdi, gjaldeyrislánin tvöfölduðust vegna falls krónunnar og verðtryggðu lánin fóru úr böndunum þegar verðbólgan rauk af stað. Afleiðingarnar urðu gríðarleg tilfærsla fjár frá skuldurum til fjármagnseigenda, - semsé frá öreigum til kapítalista.
Vel má halda því fram að tilfærslan hafi ekki staðið í neinu samhengi við það sem eðlilegt má teljast og því kom fram sú krafa að færa svolítinn hluta hins oftekna fjár til baka, vinda ofan af vitleysunni. Gallinn var bara sá að tillögurnar komu fram vitlausu megin við hina pólitísku víglínu, þegar stjórnarandstaðan lagði til leiðréttingu fyrir liðnar kosningar varð stjórnarliðið sjálfkrafa á móti þeirri leið. Staða heimilanna er hins vegar svo svakaleg að hefðbundin átakapólitík af þessu tagi gengur ekki lengur, við þurfum að fylla upp í skotgrafirnar og taka höndum saman.
Engin ofrausn væri að færa niður um það bil tuttugu prósent af höfuðstól verðtryggðra lána sem tekin voru til íbúðakaupa og örlítið betur hvað varðar gjaldeyrislánin. Til að koma í veg fyrir óþarfa niðurgreiðslur til auðmanna má setja hámark á lánafjárhæðina sem miðað verður við, þannig að einungis þau lán sem teljist innan marka eðlilegra íbúðakaupa venjulegra fjölskyldna verði leiðrétt, til að mynda aðeins fyrstu tuttugu milljónirnar af hverju húsnæðisláni. Hægt er að hugsa sér margvíslegar álíka útfærslur sem stjórnvöld þurfa að íhuga.
Ég legg því til að Jóhanna, Steingrímur og Sigríður Ingibjörg bjóði þeim Benedikt Jóhannssyni og Guðmundi Steingrímssyni í kaffi og klári málið í sameiningu. Þá fyrst getum við kannski öðlast svolitla trú á stjórnmálin á nýjan leik.