föstudagur, 27. júní 2008

Kreppa á verðbólgnum jeppa

Það er komin kreppa. Eitt skýrasta merki þess er að útrásarvíkingarnir okkar hugumstóru og margrómuðu eru víst margir hverjir á leiðinni heim, - einn á eftir öðrum í halarófu yfir hafið. Það er meira að segja farið að sjást til þeirra sumra í Leifstöð enda ekki margir sem hafa getað endurnýjað leigusamninginn á einkaþotunni undanfarið hálft ár eða svo.

Um bæinn gengur sú flökkusaga á meðal manna að eitt megingoð íslensks viðskiptalífs hafi meira að segja sést á almennu farrými á leiðinni heim frá London um daginn. Svoleiðis hefur ekki sést lengi. En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sem er raunar að mér skilst einn helsti vandinn: Íslensku fjármálafurstarnir fá nú ekkert selt á hærra verði en þeir keyptu á uppsprengdu verði í uppsveiflunni.

Skuldadans

Virði margra nýkeyptra fyrirtækja í útlöndum er orðið minna en ekki neitt. Í bókstaflegri merkingu, - útrásin var tekin út á krít og nú, þegar komið er að skuldadögum, fæst minna fyrir eignirnar heldur en nemur skuldsetningunni. Mér er sagt að nú sé svo komið að íslenska þjóðarbúið í heild sinni skuldi orðið meira í útlöndum heldur en við eigum utan landsteinanna. Útrásin er þar með komin á höfuðið. Úti er ævintýri, - eða allavega í biðstöðu.

Þeir eru margir hverjir ansi sárir, sem hafa barist í okkar nafni á blóðugum velli alþjóðaviðskiptanna undanfarin misseri. Fregir herma að sumir hafi nú þegar fallið í valinn, aðrir séu helsærðir en sem betur fer hafa einhverjir náð að verjast óvígum her hnattrænnar lausafjárskrísu. Og eru semsé nú á leiðinni heim að sleikja sárin og safna kröftum.

Fett og brett

En við blæðum öll fyrir. Líka þeir sem gerðu ekki neitt annað en að vinna sitt starf hér heima og sýna sömu fyrirhyggju og ráðdeild og alltaf. Verðbólgan étur upp launin eins og mölurinn forðum, vextirnir þurrka upp næfurþunn seðlaveskin og gengisfall krónunnar borar gat á alla vasa. Almenningur borgar fyrir óhóflegt samkvæmislíf nýju auðstéttarinnar, fyrir gleðskap sem þeim var ekki einu sinni boðið í. Og nú á mamma gamla í stjórnarráðinu og afi hennar í Seðlabankanum að koma glaumgosunum til bjargar.

Þeir segja að lækningin felist í að fá meiri pening frá útlöndum. Menn þurfa skammtinn sinn. En sú gamla veit ekki sitt rjúkandi ráð og fjasar bara um óviðjafnanlegan teygjanleika íslensku krónunnar. Sjáðu hvað hægt er að toga hana og teyja, sagði sú gamla hróðug á fundi London, sveigja hana og beygja, fetta og bretta. Út og suður. Og það þrátt fyrir ríflega þriðjungsfall á innan við hálfu ári.

Sólarsamba

Best haldna hálaunastétt landsins hefur enn og aftur hótað að loka landinu. Vonandi ná sem flestir heim fyrir verkfall flugumferðarstjóra. Voðalega vont að vera fastur í útlöndum með götótta krónu. Fríið er tekið heima í ár, en við komumst ekki einu sinni út á land því bensínið hækkar með hverjum keyrðum kílómetri. Akureyri er nú í tugþúsunda fjarlægð.

En okkur er svo sem sama, veðrið hefur nefnilega verið svo ósköp gott. Sólin er okkar Prosac og tilfinningarnar fá útrás fyrir framan skjáinn. Á EM og við að fylgjast með blessuðum ísbjörnunum sem hafa stytt okkur stundir í blíðunni. Og jarðsjálftinn maður, þá var stuð. En hvað svo? Hvað gerist þegar ísbirnir hætta að ganga á land, boltinn er búinn og sólin farin? Hvað ætla efnahagsmálayfirvöld þá að gera?

24 stundir, 27. júní 2008.