sunnudagur, 25. janúar 2009

Vandlifað

Þau mótmæli sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði hafa haft afgerandi áhrif í íslenskum stjórnmálum. Valdhafarnir fengu aldeilis að finna til tevatnsins þegar þing kom saman á ný á þriðjudaginn síðastliðinn. Með taktföstu andófi sýndi þjóðin og sannaði að valdið er hennar en ekki fulltúanna sem fóru svona gáleysilega með umboðið.

Semsé allt gott og blessað, en um leið þurfum við að passa að þjóðin slitni ekki í sundur í átökunum, að við sjáum ekki lengur manneskjuna á bak við skyldina. Lögreglumenn hafa fengið að reyna margt ófagurt undanfarna daga og margir gæslumenn laga hafa lika farið offari gegn sárasaklausum mótmælendum, tilefnislítið að því er virðist.

Andófið í garð stjórnvalda má heldur ekki verða til þess að við sjáum ekki lengur fólkið á bak við embættin. Þegar Geir H. Haarde sagði frá alvarlegaum veikindum, lýsti yfir afsögn sinni og boðaði í reynd til kosninga þá taldi einn helsti talsmaður mótmælenda það aðeins pólítískt kænskubragð.

Svoleiðis viðbrögð lýsa ekki mikilli mannvirðingu. Því miður hafa sumir sjálfskipaðir talsmenn mótmælenda brugðist á svipaðan hátt við afsögn viðskiptaráðherra í morgun. Fyrst var hann skammaður fyrir að sitja sem fastast eftir bankahrunið en þegar hann loksins hreinsar til í Fjármálaeftirlitinu og segir sjálfur af sér embætti er hann húðskammaður fyrir það líka.

Við megum ekki gleyma því að er hér er allt í kalda koli í efnahagslífinu og eldar leika enn um önnur svið þjóðfélagsins. Einhverjir þurfa að sigla illa laskaðri þjóðarskútunni. Það þarf vissulega að hreinsa til, það sjá allir, en ef baráttan á dekkinu verður of hörð þá sökkvum við öll.