Lauk rétt í þessu við bókina Litla stúlkan og sígarettan eftir franska höfundinn Benoit Duteurtre. Bókin kom út í þýðingu Friðriks Rafnssonar nú fyrir jólin.
Því miður er þetta hroðalega viðeigandi lesning í því samfélagi pólitísks rétttrúnaðar sem við höfum þróað á Vesturlöndum undanfarin ár. Söguhetjan hefur illan bifur á börnum en nautn af reykingum sem verður til þess að steypa honum í glötun og útskúfun úr samfélagi manna.
Þessi hrollvekjandi saga gerist í nálægri framtið sem er vægast sagt nokkuð ógnvekjandi. Duteurtre vefur sögu sína af miklu öryggi svo úr verður ægileg lesning, - sér í lagi fyrir miðaldra karlmenn. Enda nánast orðinn glæpur í sjálfu sér að vera karlkyns og kominn á miðjan aldur. Svoleiðis skepnur eru ekki í miklum metum í þjóðfélagi kvenlægrar æskudýrkunar.