Við vissum að löggjafarþingið okkar litla við Austurvöll hefur látið undan síga gagnvart framkvæmdavaldinu.
Síðustu vikur hefur þó gjörsamlega keyrt um þverbak, þingið er steinhætt að reyna að hafa nokkur áhrif á þá lagasetningu sem það er viðstöðulaust látið stimpla fyrir ríkisstjórnina, - sem aftur er löngu hætt að ræða við þjóðina.
Í gærkvöldi var svo til án umræðu samþykkt að stórhækka skattheimtu af eldsneyti og áfengi. Sú gjörð dugar skammt til að lappa upp á laskaðan ríkissjóð en mun hins vegar virka sem olía á verðbólgueldinn, svo við fáum að greiða hækkunina aftur í gegnum verðbætur á húsnæðislánin okkar.
Kannski væri sparnaðarráð að senda þingið heim í launalaust leyfi, - fyrst það virðist óþarft í kreppu?