þriðjudagur, 15. júlí 2008

Lundúnir og evrumál

Iceland express skilaði mér hingað til London, rétt eftir að fundi þeim sem ég ætlaði á lauk og kollegar mínir héldu heim á leið. Við tók ágætis rölt í borginni, fann til að mynda margar áhugaverðar bækur sem ég þarf að drösla með mér það sem eftir er af ferðalaginu. Síðar í dag fer ég til Berlínar og svo áfram til Lubljana þar sem ég er með grein og erindi á ráðstefnu um rannsóknir í alþjóðafræðum. Þetta er raunar viðamesta fræðiráðstefna heims á sínu sviði, þar að segja alþjóðafræðum og hnattvæðingu. Ég á að fjalla um norræna þjóðernishyggju.

Björn Bjarnason er heldur óljós í málflutningi sínum um upptöku evru á grundvelli EES. Það hefur lengi verið vitað að ómögulegt er að fá tvíhliða samning við ESB um upptöku evru, hvað þá ef með á að fylgja aðild að Efanhags- og myntbandalagi ESB eins og Valgerður Sverrisdóttir lagði eitt sinn til. EMU verður ekki skilið frá ESB.

Hins vegar gæti verið tæknilegur möguleiki á því að fá einhvers konar aðild að undirbúningsferlinu í ERM II. Sem er samskonar staða og Danmörk er í gagnvart evrunni. ERM II er kerfi sem tengir gjaldmikil viðkomandi ríkis við evru á tilteknu gengi en leyfir því að sveiflast um afar þröngt miðgildi. Danska krónan er því einskonar skuggaevra, - hreinlega ekkert annað en ávísun á evru.

Vandi okkar er þó sá sami og áður. Ísland er ekki í Evrópusambandinu og því ansi fjarlægur möguleiki að ESB fallist á að hleypa okkur inn í ERM II. Svo væri þetta nú ansi furðuleg staða fyrir fullvalda þjóð sem ekki vill vera í ESB. Eigi að síður mætti svo sem láta á þetta reyna ef menn hafa virkilega áhuga á svoleiðis æfingum.