miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Notaleg

Lauk nýverið við nýja skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar, Segðu mömmu að mér líði vel.

Ef ég mætti aðeins nota eitt orð til að lýsa bókinni myndi ég segja að hún væri notaleg. En sem betur fer hef ég efni á fleiri orðum því notalegheitin eru aðeins ein hlið bókarinnar. Hún er einnig skemmtileg í sínum látlausu og lágstemdu lýsingum á tilfinningalífi miðaldra manns í Reykjavík. Andri dregur upp umhugsunarverða mynd af samfélaginu en stundum var ég ekki alveg viss hvert hann vildi fara, hvert erindið væri. Á tíðum fannst mér bókin einnig full hæggeng, en það fyrirgefur maður Andra umfram aðra íslenska höfunda því bókin er auðvitað fantavel skrifuð eins og vænta mátti, - nostrað við hvert orð.

En þegar öllu er á botninn hvolft ber mig aftur að sama orði, þetta er notaleg saga. Sem er ekki svo lítil gjöf í því ástandi sem við nú lifum, að fá um stund að setjast til hliðar með notalega bók og dreypa kannski örlítinn kaffisopa með.