mánudagur, 3. nóvember 2008

Fyrirgefðu, en ert þú ekki frá Íslandi?

„Fyrirgefðu herra prófessor, en ert þú ekki frá Íslandi?“, spurði framhleypinn rauðhærður drengur með ítalskan hreim.

Ég var í háskólanum í Ljubljana í síðustu viku að kenna hnattvæðingu og rétt byrjaður að lýsa fínni blæbrigðum á kenningum um hattræna þróun.

„Jú, það er rétt,“ svaraði ég glaður í bragði enda gaman að ræða hugmyndir erlendra nemenda um Ísland.

Yfirleitt dettur þeim í hug eitthvað tengt náttúrunni, kannski jarðvarma, Geysi og fallvötn. Og svo auðvitað Björk, líka Sigur Rós og Eið Smára. Einstaka maður kann skil á bókmenntaarfinum og svo hefur viðskiptalífið komið sterkt inn allra síðustu ár. Þetta var gjörvilegur fjölþjóðlegur nemendahópur, alls staðar frá. Oft er gott að nota áhuga nemenda og tengja við námsefnið, svo ég opnaði fyrir spurningar.

„Ok, þetta er allt saman voðalega áhugavert hjá þér,“ sagði sá rauðhærði og hélt óþolinmóður áfram. „En gætirðu kannski sagt okkur hvað er eiginlega að gerast þarna hjá ykkur?“

Ég vissi að ég gæti átt von á þessari spurningu svo ég hóf að útskýra útrásina sem var grundvölluð á EES og benti á þá augljósu staðreynd að bankarnir höfðu vaxið krónunni yfir höfuð og því verið ansi valtir fyrir þegar fárviðrið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum skall á.

„En máttu menn ekki sjá það fyrir?,“ spurði forviða stúlka á fremsta bekk með sterkum þýskum hreim. Enda vitað frá því að fjármagsflutningar voru endanlega gefnir frjálsir með Maastricht-sáttmálanum að illmögulegt væri fyrir flest ríkin á innri markaði Evrópu að halda úti óvörðum gjaldmiðli í svo opnu kerfi.

„Vissulega,“ svaraði ég. „Annað hvort varð að koma í veg fyrir vöxt fjármálakerfisins eða að taka upp evru,“ útskýrði ég samvisskusamlega.

„Af hverju var það þá ekki gert?,“ spurði síðhærður Slóveni sem hallaði sér aftur undir gluggavegginn í hnausþykkum sótsvörtum leðurfrakka.

„Jú, sjáðu til„ svaraði ég, „við vildum gjarnan nýta alþjóðavæðingu fjármálalífsins til að efnast en fullveldisins vegna gátum við ekki skipt krónunni út fyrir útlenska mynt.“ Ég fann að þau áttu erfitt með að skilja þessa skýringu.

Næst kvað sér hljóðs mjósleginn svarthærður drengur frá Suður-Ameríku. „Er það rétt sem ég hef heyrt að það sé fyrrverandi stjórnmálamaður seðlabankastjóri hjá ykkur?“

Ég svaraði að slíkt þætti alvanalegt á Íslandi. Sá suðurameríski hélt áfram: „Það er vissulega margt undarlegt á seyði í stjórnmálunum í Brasilíu, en meira að segja okkur myndi nú ekki detta í hug að láta pólitíkusa stýra seðlabankanum,“ sagði hann og hristi höfuðið.

Við mér blöstu hundrað undrandi andlit svo ég fór að ræða lausnir vandans, ræddi fyrirhuguð lán frá IMF, Rússlandi og Norðurlöndunum þar til snögghærð stúlka frá Hollandi tók til máls.

„Fyrirgefðu, en mér skilst að vandinn sé einna helst sá að þið eruð búin að taka svo rosalega mikið af lánum, fyrirtækin keyptu handónýtar eignir í útlöndum og almenningur virðist hafa staðið í biðröðum í bönkunum til að taka sem allra mest að láni. En svo segið þið núna að lausnin á þessari krísu, sem er semsé tilkomin vegna óhóflegra lántöku, sé að taka bara enn meiri lán í útlöndum. Hvernig getur það eiginlega gengið upp?“

Viðskiptablaðið 31. október 2008