sunnudagur, 23. nóvember 2008

Vandinn er heimatilbúinn

Íslensk stjórnvöld hafa látið í veðri vaka að hrun bankakerfisins eigi einna helst orsök í óviðráðanlegum ytri aðstæðum. Annars vegar vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar og hins vegar vegna kerfisvillu í evrópsku reglugerðaverki um innstæðutryggingar. Þetta er einkar heppileg skýring fyrir innlend stjórnvöld því þar með bera þau enga ábyrgð.

Hvítþvotturinn gengur jafnvel svo lagt að í máli sumra er látið sem skuldbindingar um tryggingar á reikningum í erlendum útibúum íslenskra banka hafi á einhvern hátt komið á óvart. Efast má um hæfni efnahagsyfirvalda sem halda slíku fram enda hefur þessi staða legið fyrir frá því Ísland undirritaði EES-samninginn.

Kerfisvandinn sem varð Íslandi að falli var heimatilbúinn. Við opnuðum fjármálamarkaðinn inn á 500 milljóna manna innri markað ESB en örgjaldmiðillinn okkar var áfram varinn af aðeins þrjú hundruð þúsund Íslendingum. Í slíka stöðu hafði ekkert ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu komið sér og við þessu óráði var margvarað. Fjöldi fræðimanna hefur þráfaldlega varað við að blessuð krónan gæti ekki staðið undir starfi bankanna á galopnum evrópskum fjármálamarkaði.

Það er engin tilviljun að með Maastrict-sáttmálanum sem undirritaður var sama ár og EES, 1992, voru teknar tvær ákvarðanir samtímis. Annars vegar að fullklára opnun fjármálamarkaða og hins vegar að verja fjármálakerfið með sameiginlegri mynt, evrunni, og sameiginlegum seðlabanka sem yrði lánveitandi til þrautavara. Á þeim tíma óraði engan fyrir að tiltekin ríki myndu taka sig út úr því ráðslagi, eins og síðar varð raunin þegar Danir, Bretar og Svíar ákváðu að halda um sinn í eigin gjaldmiðil. Öll ríkin gerðu þó viðhlítandi ráðstafanir til að verja sína mynt.

Norðmenn eru varðir af olíusjóðnum og öll nýju aðildarríki ESB hafa tekið skref til varnar. Aðeins Ísland þverskallaðist við. Eins og glöggur maður nefndi var krónan of lítil fyrir bankana en evran of stór fyrir íslenska stjórnmálamenn. Því fór sem fór.

Fréttablaðið, 22. nóvember 2008.