Í viðleitni til að koma í veg fyrir enn frekari misstök er því kannski ekki úr vegi að skoða nokkur þau mistök sem komu okkur í þá stöðu að vera bæði gjaldþrota og rúin trausti í alþjóðlegum samskitpum. Hér eru valin af handahófi nokkur mistök sem öll voru fyrirsegjanleg, hefðu stjórnvöld staðið vaktina sem þau voru kosin til:
1. Fjármálamarkaðurinn opnaður upp á gátt án þess að koma örgjaldmiðlinum okkar í skjól. Þá óráðsstöðu hafði ekkert annað land í EES komið sér í. Minni á að norska krónan er varin af olíusjóðnum. Annað hvort varð að þrengja að frelsi í fjármagnsflutningum og koma bönkunum úr landi eða taka upp lífvænlegri gjaldmiðil.
2. Af hugmyndafræðilegum ástæðum voru eftirlitsstofnanir hafðar veikburða þegar atvinnulífinu var gefinn laus taumurinn með einkavinavæðingu. Það mátti ekki trufla hinn frjálsa markað. Úlfakapítalisminn tók svo öll völd í samfélaginu þegar taumhaldið skorti.
3. Í kjölfar einkavæðingarinnar var bindiskylda bankanna lækkuð þegar hana átti auðvitað að hækka í viðleitni til að koma böndum á brjálæðið.
4. Gjaldeyrisvarasjóður hafður allt of lítill miðað við stærð fjármálakerfisins, sem skildi fjármálakerfið eftir berskjaldað og auðveldaði áhlaup skortsölumanna á krónuræfilinn.
5. Stjórn Seðlabankans skipuð stjórnmálamönnum sem höfðu pólitískan hag af því að verja tiltekna hugmyndafræði frekar en að stýra peningastefnunni af fagmennsku. Um leið skorti Seðlabankann trúverguleika sem er ein ástæða þess að nágrannaríkin hikuðu við að koma til aðstoðar.6. Einkabönkum leyft að veðsetja þjóðina í útlöndum án hennar vitundar, samanber Icesave hneykslið
7. Stýrivextir hafðir í hæðstu hæðum þrátt fyrir að þeir bíti lítið á staðbundna verðbólgu í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Um leið sogaðist inn í landið eitrað áhættufjármagn sem felldi krónuna um leið og harnaði á dalnum. Hundruð milljarða fuku út úr þjóðarbúinu í hávaxtagreiðslur til útlendinga.
8. Þjóðnýting Glitnis var til þess fallin að loka endanlega fyrir allar lánalínur inn í landið og hratt af stað þeirri hroðahrinu sem enn stendur yfir og ekki sér fyrir endann á.
9. Ógætileg ummæli í Kastljósi þess efnis að erlendir kröfuhafar fái ekki greitt einangraði landið og rétti Bretum vopnin í hendurnar.
10. Gengið fest tímabundið með ótrúverðugum hætti svo Seðlabankinn varð að afnema hina nýju fastgengisstefnu innan tveggja sólarhringa.
11. Vextir lækkaðir og svo skyndilega hækkaðir langt upp yfir fyrri stöðu á einni viku.
12. Sagt frá fyrirhuguðum lánafyrirgreiðslum ólíklegustu landa án þess að nokkuð lægi fyrir annað en óskhyggjan ein.
13. Bretum leyft að setja á okkur hryðjuverkalög og traðka orðspor landsins í svaðið án þess að brugðist væri til varna í því PR-stríði sem brostið var á.
Viðskiptablaðið, 14. nóvember 2008