Ég er ekki viss um að Ísland verði starfhæft í dag, í það minnsta ekki í hádeginu þegar karlalandssliðið í handbolta mætir Spánverjum í undanúrslitum. Fólk er í óða önn að fresta fundum og melda sig veikt í vinnu, þar að segja ef vinnuveitandinn hefur ekki verið svo forsjáll að koma upp boðlegum flatskjá á vinnustaðnum.
Og forsjánni sé lof fyrir handboltabrjálæðið sem gripið hefur þjóðina því annars er næsta víst að þessi pistill færi í að ræða málefni borgarstjórnar Reykjavíkur, sjálfum mér og lesendum til sárra og óblandinna leiðinda. Rétt að þakka fyrir það.
Erfitt samband
Mér skilst að skólasetning grunnskóla sé víða í uppnámi vegna leiksins. Börnin láta ekki teyma sig í skólann þegar Óli og félagar láta fallbyssurnar falla úti í Peking. Annars hafa tengsl handboltalandsliðsins við þjóðina alltaf verið dálítið erfið. Þegar vel gengur eru þeir strákarnir okkar, bestu synir þjóðarinnar, hvers manns hugljúfi og nöfn þeirra á allra vörum. Bláókunnugt fólk ræðir um Snorra Stein, Ólaf og þennan ótrúlega markvörð eins og um nána fjölskyldumeðlimi sé að ræða. Eins og þeir séu heimagangar á hverju einasta heimili á Íslandi.
En þegar illa árar hefur enginn áhuga á liðinu. Þá látum við okkur fátt um finnast og teljum okkur trú um að þetta sé nú ekki svo ýkja merkileg íþrótt. En nú eru þeir semsé aftur orðnir strákarnir okkar og sjálfur forsetinn mærir þá í beinni í sjónvarpinu á daginn og strýkur þeim svo um kviðinn áður en þeir fara að sofa á kvöldin. Segir sögur af heljarmennum og syngur þá í svefn með gömlum ættjarðarsöngvum.
Næturlífið
Sjálfur get ég ekkert í handbolta, náði aldrei almennilegu valdi þessari íþrótt í leikfimitímum í Breiðholtinu í gamla daga. Samt hefur blóðþrýstingurinn sjaldan verið jafn hár og yfir sjónvarpinu undanfarna dag. Ríf mig upp á undarlegustu tímum sólarhringsins og læt öllum illum látum í klukkutíma eða svo. Heimilið hefur eiginlega verið undirlagt. Börnin hafa auðvitað heimtað að fá að vaka yfir leikjunum.
Níu ára sonur minn sefur yfirleitt svo fast að hann gæti misst af heilu heimstyrjöldunum yrðu þær um nætur, jafnvel þótt þær væru háðar í herberginu hans. Eigi að síður spratt hann á fætur þegar ég vakti hann um miðja nótt til að horfa á Ísland eiga við Egypta, - sem hann kallar raunar aldrei annað en múmíurnar en það er önnur saga. Og heimasætan sem vanalega getur ekki fyrir sitt litla líf vaknað á morgnanna lét sig ekki vanta í morgunmatinn skömmu fyrir sex á miðvikudagsmorgun til að hita upp fyrir lætin á móti Pólverjum.
Ólöglegt
En allra verst leið mér á móti Dönum. Spennan var ekki aðeins óbærileg eins og stundum er sagt, um tíma hélt ég að hjartað ætlaði hreinlega að hrökkva upp úr kokinu og æðarnar að slitna úr höfðinu. Konan var eitthvað benda mér á að þetta væri nú bara íþróttaleikur en ekki barátta upp á líf og dauða, ég ætti því bara að slaka á og njóta leiksins. Kannski fá mér te og osta.
En í því efni hafði hún auðvitað kolrangt fyrir sér. Auðvitað var þetta upp á líf og daða. „Þetta er sko ekki bara einhver íþróttaleikur,“ öskraði ég á hana. „Hér er sex hundruð ára nýlendukúgun undir,“ æpti ég í frávita æsingi. „SEX HUNDRUÐ ÁR,“ hélt ég áfram að hrópa og steytti hnefann í átt að sjónvarpinu. Já þetta er ekkert grín. Réttast væri að setja í lög að það sé bannað að tapa fyrir Dönum.
24 stundir, 22. ágúst 2008.