Það var ekki laust við að nokkurrar undrunar hafi gætt í skrifum breska stórblaðsins, The Financial Times, á dögunum þegar blaðið ræddi uppgjör íslensku viðskiptabankanna. Þrátt fyrir efnahagsdýfu á alþjóðavísu skiluðu allir þrír viðskiptabankarnir góðum hagnaði. Að vísu ekki sama fítonshagnaði og áður, en eigi að síður nokkuð traustri afkomu. Og það kom sérfræðingum Financial Times semsé svona mjög á óvart. En áður hafði farið fram á síðum blaðsins nokkuð óvægin umræða um íslenskt efnahagslíf, á sumum þeirra skrifa mátti jafnvel skilja að íslensku bankarnir væru á þráðbeinni leið á höfuðið.
Einlæg undrun
Fréttin í blaðinu um daginn var ekki aðeins einhvers konar feginleikaandvarp, þegar uppgjör bankanna sýndu svart á hvítu fram á að staðan væri mun betri en menn óttuðust, heldur mátti einnig greina í skrifunum einlæga undrun. Hvernig gat það staðist, spurði blaðið, að þrátt fyrir fjölmargar arfaslakar og rándýrar fjárfestingar haldi bankarnir enn sjó? Það var illt að skilja. Blaðamennirnir áttu greinilega von á að æðibunugangur íslensku útrásarbankanna myndi koma þeim illilega í koll nú þegar alþjóðlega lánsfjárkrísan var farin að bíta fastar í grunnstoðir fjármálafyrirtækja út um allan heim. Sér í lagi þar sem svo margir voru hættir að geta greitt af ofgnóttarlánum þeim sem bankarnir otuðu að fólki og fyrirtækjum í uppsveiflunni. Og svo, þegar hrun krónunnar bættist ofan í kaupið áttu blaðamenn Financial Times semsé ekki von á góðu. Ekki frekar en greiningadeildir matsfyrirtækja um víða veröld. Já, hvernig gat þetta staðist?
Óskiljanlegt
Það getur vel verið að sprenglærðir fjármálaspekúlantar úti í hinum stóra heimi eigi erfitt með að skilja þetta. Maður sér þá fyrir sér í teinóttum fötum, í glerjaðri hornskrifstofu með útsýni yfir Thames eða Hudson, lagandi á sér hnausþykkan bindishnútinn og klóra sér í kollinum yfir útkomunni. Hér eru öll efnahagslögmál á haus. En við, almennir íslenskir skuldarar, sem fátt höfum lært í fínni fræðum fjármálanna, við skiljum þetta hins vegar mætavel. Það erum nefnilega við sem borgum. Það erum við sem höldum bönkunum á floti. Við erum hinar traustu stoðir íslenska fjármálakerfisins. Og alveg sama hvað þeir sukka og svína, hvað þeir fjárfesta vitlaust og fljúga margar ferðir á einkaþotunum sínum, á meðan við borgum er þeim borgið.
Ólán
Ég skal taka dæmi. Fyrir tæpum þremur árum keyptum við hús. Bara svona ósköp venjulegt hús sem meðalfjölskylda á meðalaunum í Reykjavík þarf að hafa yfir höfuðið. Og til þess þurfti lán. Töldum okkur þó ansi góð eiga fyrir sirka helmingnum. En restin var tekin að láni. Þeir sögðu að þetta væri alveg voðalega gott lán. Lágir vextir og svakaþæginlegar afborganir. Fengum útprentaða áætlun um greiðslur næstu þrjátíu árin, upp á krónu alla 360 mánuðina. Við létum því slag standa, skrifuðu undir með bros á vör og fluttum inn. Og á hverjum mánuði fær bankinn sitt. Fyrstu mánuðina gekk áætlunin nokkurn vegin eftir en smám saman fóru afborganirnar að hækka, fyrst örlitið í hverjum mánuði en svo fóru þær að taka tugþúsunda stökk. Og ekki nóg með það, nú skuldum við bankanum fjórum milljónum meira heldur en þegar lánið var tekið fyrir tæpum þremur árum. Bölvað ólánið lækkar ekki með hverri afborgun eins og í öllum venjulegum löndum heldur hækkar það í hverjum einasta mánuði.
Kannski ekki nema von að fínir fjármálamenn í útlöndum eigi erfitt með að skilja velgengni íslensku ólánabankanna. Það skiljum við hins vegar mæta vel og höldum svo bara áfram að borga.
24 stundir, 8. ágúst 2008.