laugardagur, 13. september 2008

Á höfuðið

Í þau fáu skipti sem maður fær að dvelja svolítið í útlöndum nennir maður ekki alltaf að fylgjast náið með fréttum á Íslandi, - jafnvel þótt aðgangur sé góður í gegnum net og farsíma.

Þegar ég kom heim í gær og opnaði fyrir fréttir útvarps var sagt frá innrás lögreglu inn á heimili hælisleitenda í Reykjanesbæ.

Ég get ekki sagt að það hafi komið mér sérlega á óvart en svo virðist sem löggæsluyfirvöld líti enn á hælisleitendur sem einskonar glæpamenn, allt þar til sakleysi þeirra er sannað.

Lögreglan segist hafa grunað fáeina hælisleitendur um græsku og ákvað af þeim sökum, að eigin sögn, að ráðast einnig inn hjá öllum hinum, - sem þó lágu ekki undir neinum rökstuddum grun. Hér er einni mikilvægust réttarreglu lýðræðisríkja, að menn skuli álitnir saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð, snúið á höfuðið. Eða hvernig er annars hægt að skýra þá ákvörðun að gera húsleit hjá heilum hópi manna vegna gruns um mögulegt brot óviðkomandi fólks?

Hvað myndu menn til að mynda segja ef lögreglan myndi ráðast inn heimili allra Reyðfirðinga, svo dæmi sé tekið, vegna þess eins að tilteknir einstaklinir í bænum lægju undir grun um ótilgreind afbrot?