þriðjudagur, 23. september 2008

Er sjálfkrafa evruvæðing hafin?

Viðskiptaráðuneytið stendur fyrir ráðstefnu í hádeginu í dag um evrumál. Yfirskriftin er: Evra á Íslandi. Hvort, hvernig, hvenær?

Mitt erindi fjallar um hvort sjálfkrafa evruvæðing sé hugsanlega hafin. Erindið byggist á úttekt sem ég hef verið að vinna fyrir Viðskiptaráðuneytið og kemur út á næstu vikum.

Ágripið er svona:

Ýmislegt bendir til að evran sé nú þegar farin að vætla inn í íslenskt efnahagslíf, þvert á stefnu stjórnvalda. Fyrirtæki eru í auknu mæli farin að gera upp bækur sínar í evrum og undirbúa jafnframt skráningu hlutafjár í Evrópumyntinni. Þá hafa lántökur og launagreiðslur aukist í evrum auk þess sem bæði vöru- og þjónustuviðskipti eru síoftar gerð í evrum. Þrýstingurinn á upptöku evru á rætur að rekja í þátttöku Íslands á innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn frá árinu 1994. Um er að ræða kerfisbundinn þrýsting sem þræðir sig eftir víxlerkunaráhrifum ný-virknihyggjunnar. Óvíst er að innlend stjórnvöld hafi nauðsynleg tæki til að verjast sjálfvirkri evruvæðingu sem að takmörkuðu leyti er nú þegar er farin af stað. En sjálfkrafa innleiðing evru er versta tegund evruvæðingar sem völ er á.

Sjá dagskrá ráðstefnunnar hér.