föstudagur, 5. september 2008

Miriam Weber

Það var gamlárskvöld og 1969 um það bil að ganga í garð. Hún var í lestinni á leiðinni heim til sín í Leipzig þegar hún tók eftir hvað landamærin voru óvanalega útbúin á þessum stað. Skipuleggjendur í gamla Austur-Þýskalandi pössuðu sig yfirleitt á að láta lestarlínur ekki liggja nálægt landamærunum við Vestur-Þýskaland og alls ekki upp að Berlínarmúrnum sem þeir kölluðu raunar aldrei annað andfasíska friðarskilrúmið.

Undantekningin var hérna við Bornholmer brú í útjaðri Berlínar þar sem landamærin láu formlega á milli lestarlínanna. Það var dimmt en í geislum skoteldanna á vesturhimni sá hún að handan grænmetisgarðana sem útvaldir fengu að rækta tók við vírahrúga og steypuklumpar og svo sjálfur múrinn. Vanalega var heilmikill vírveggur austanmegin, svo kom dauðasvæðið með öllum sínum banvænu hindrunum og svo loks steinsteyptur múr sem var ysta lagið mót vestri. Þann múr gat hún semsé séð í gegnum lestargluggann.

Hún steig út úr lestinni, fikraði sig niður að grænmetisgörðunum, klifraði yfir grindverkin sem skildu grænmetisgarðana að og fikraði sig nær múrnum sem var í um það bil hundrað og fimmtíu metra fjarlægð. Í raun var hún heppin að vera ekki handtekin þá þegar því landamæraverðirnir voru allt um kring, gráir fyrir járnum. En það var fyrst núna sem hún tók eftir þeim gangandi eftir dauðasvæðinu með hundana sína.

Fyrir utan landamæraverðina og hungraða hunda stóð í vegi hennar himinhátt limgerði, ljóskastarar sem færðust óreglulega til eftir svæðinu, upprúllaður gaddavír á trjádrumbum og loks djúpa sendna svæðið sem lá upp að vesturmúrnum. Einhvernvegin tókst henni að troða sér yfir þéttriðið limgerðið og fikra sig svo út á sandinn. Hún fór sér hægt svo verðirnir yrðu hennar ekki varir og skreið yfir hverja hindrunina á fætur annarri og var komin alla leið upp að múrnum þegar þeir sáu hana. Hún sá ljósin og heyrði glasaglauminn vestan megin áður en hún var send rakleiðis aftur í fangelsið.

Óvinur ríkisins

Miriam var aðeins sextán ára gömul og þá þegar orðin að óvini ríkisins, eins og Anna Funder segir svo vel frá í bók sinni Stasiland. Af ótta við samskonar upplausn og varð í Prag vorið 1968 hófu austurþýsk stjórnvöld að herða tökin, ekki síst í Leipzig þar sem Miriam bjó. Öryggislögreglan réðist meðal annars til atlögu við gömlu háskólakirkjuna í miðborginni sem einn daginn var jöfnuð við jörðu, andófsmenn voru handteknir og eftirlit hert til muna.

Miriam og Ursula, vinkona hennar, voru engir sérstakir andkommúnistar en þær vildu gjarnan mótmæla aðför stjórnvalda að tjáningarfrelsinu og öðrum mannréttindum og útbjuggu í þeim tilgangi lítinn bækling sem þær hengdu upp á ljósastaura í hverfinu sínu og dreifðu í hús eina nóttina. Í bréfinu hvöttu þær íbúa Leipzig að láta í sér heyra og gera athugasemdir við framferði stjórnvalda.

Þetta var auðvitað kolólöglegt athæfi og brátt bárust böndin að þeim stöllum. Skömmu síðar voru þær handteknar og færðar í fangelsi þar sem þær máttu dúsa í einangrun mánuðum saman þar sem þær voru beittar grimmilegu harðræði. Enginn fékk að heimsækja þær, fengu ekkert að lesa og ekkert að sjá annað en miksunarlitla fulltrúa ríkisins. Og aldrei að hringja. Því var kannski ekki nema von að Miriam skildi hafa freistast til að klífa múrinn þegar hún sá tækifæri til þess skömmu eftir að hún losnaði úr fangelsinu.

Eftir uppákomuna átti hin sextán ára Miriam fáa möguleika á að finna hæfileikum sínum viðnám, meinað að stunda háskólanám með félögum sínum og fékk hvergi vinnu nema í ömurlegustu skítastörfum og lifði svo það sem eftir var undir stöðugu eftirliti öryggisþjónustu austurþýska alþýðulýðveldisins, - allt þar til að múrinn var rifinn niður að kveldi dags 9. nóvember 1989.

24 stundir, 5. september 2008.