sunnudagur, 12. október 2008

Skaðræðisklúður

Nú um helgina hafa vinir mínir víða um lönd hringt hver á eftir öðrum áhyggjufullir og spurt hvort ég og fjölskylda mín hafi enn nóg að bíta og brenna, samkvæmt fréttum sé hér allt á vonarvöl, upplausn í samfélaginu, fjöldaatvinnuleysi, jafnvel hungur. - Semsé algjört og endanlegt hrun!

Það er með hreinum ólíkindum, hvað íslensk stjórnvöld hafa verið slöpp við að bregðast við þeim ógurlega ímyndarskaða sem Ísland hefur þurft að þola liðina viku, skaða sem ekki verður bættur næstu árin, fyrst ekki var brugðist við af öllum mætti. Því er það ábyrgðarhluti hvað lítið hefur verið gert til að mæta skaðræðisvél bresku götupressunnar sem hefur áhrif út um allan heim.

Hrikalegt PR-klúður.

Rétt í þessu hafði vinur minn í Ljubljana samband, hafði verið að lesa Daily mail og fékk af lestrinum áhyggjur af því að ég ætti enn í matinn, bauðst til að aðstoða eins og hann gæti.

Ég reyndi að róa hann, sagði að við værum sosum alveg í lagi. En það er allavega gott að eiga vini einhvers staðar.