föstudagur, 10. október 2008

Förum í hart

Breska ríkisstjórnin er komin út yfir allt velsæmi í aðgerðum og ummælum sínum gegn Íslandi.

Þrátt fyrir allt og hvað sem klaufagangi íslenskra peningamálayfirvalda líður þá var það nú samt fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, sem setti af stað áhlaup á Kaupþing svo bankinn fór að lokum í þrot. Hann mátti vita hvaða áhrif ummæli hans myndu hafa í því tvísýna ástandi sem uppi var. Svo bætti forsætisráðherrann um betur og setti á okkur hryðjuverkalög! Og nú hóta þeir málsókn ofan á allt saman.

Held að það sé kominn tími til að fara í hart í málinu, enda er sókn yfirleitt besta vörnin í svona ríkjadeilum eins og sannaðist í þoskastríðunum. Nú er þetta orðið PR-stríð. Það erum við sem eigum að hóta málsókn á þeirra hendur og nýta alþjóðapressuna sem hér er til að svara fullum hálsi.