þriðjudagur, 21. október 2008

Samúðarfullir slóvenar

Kominn til Slóveníu, er í gestakennslu við Ljubljana háskóla þessa vikuna. Flestir sem ég hitti hafa boðið mér einhvers konar fátæktaraðstoð, - með einlæga samúð í augum.

Í morgun bauð ungur nemandi minn mér upp á kaffi. Sem ég þáði auðvitað með þökkum.

Ég á að kenna hnattvæðingu, en einu spurningarnar sem ég fæ eru um Ísland.

Annars er þetta svolítið merkilegt, vinir og kollegar víðsvegar um lönd hafa haft samband við mig út af Íslandskrísunni til að grenslast fyrir um hagi mína, hvort við þurfum á einhverri aðstoð að halda. Á undanförnum árum hef ég haft ýmislegt saman að sælda við kollega mína í Danmörku og ávallt verið í sambandi við gamla skólafélaga í Kaupmannahöfn. Þaðan hefur hins vegar hvorki heyrst hósti né stuna frá því að vandræðin byrjuðu.