föstudagur, 3. október 2008

Sísona

Jú, það er virkilega gaman að koma hingað til Gdansk, þessarar sögufrægu borgar sem enn er kennd við Samstöðu, borgarinnar sem hóf lokaandófið gegn Sovétskipulaginu árið 1980, borg rafvirkjans Lech Walesa sem ásamt félögum sínum í Lenín-skipasmíðastöðinni í slipnum hér úti við Eystrasalt bauð kommúnismanum birginn löngu áður en það mátti.

Já, það er sannarlega stóráhugavert að koma hingað. Eini vandinn er sá að íslenska krónan er hrunin. Ríkisstjórnin hvatti krónuræfilinn upp á hæsta pall í óráðsþenslu, þar sem hún dúaði í stutta stund áður en hún stakk sér í glæsilega dýfu fram af stökkpallinum. Seðlabankinn klappað krónugreyinu á koll eins og stolt foreldri en áttaði sig ekki á að það er ekkert vatn í sundlauginni, ekkert til að taka fallið af flotkrónunni þegar hún brotlendir á botninum. En semsé, að öðru leyti er reglulega gaman að vera komin til Póllands.

Farinn til Póllands

Einhvern tíman var staðan sú að Pólverjar hópuðust til Íslands til að vinna sér inn dýrmætar íslenskar krónur, sem um tíma glóðu eins og skíragull, krónur sem duglegt verkafólk gat sent heim til snauðra fjölskyldna sem húktu í mígleku skjóli zlotýsins heima í Póllandi.

En nú er þetta ögn breytt, nú gengur Íslendingurinn um götur gömlu Samstöðu með vitagagnslausar íslenskar krónur í vasanum, krónu sem hefur fallið um helming gagnvart pólska zlotýinu á innan við ári, krónu sem hefur brennt slík skaðræðisgöt á alla íslenska vasa að maður hefur tæpast efni á sæmilegu kartöflugúllasi á miðlugs matsölustað. Sannast sagna svíður manni í nárann undan glóðum krónunnar í hverju einasta skrefi hér ytra.

Verzlunarstríð

Ætli ég hafi ekki verið fjórtán ára, eða þar um bil, þegar ég opnaði fyrst reikning í Verzlunarbankanum niðri á BSÍ og lagði stoltur inn sumarhýruna til ávöxtunar. Svo varð Verzlunarbankinn að Íslandsbanka, seinna bættist FBA við og loks varð allt klabbið að Glitni.

Fyrir helgi átti ég í viðskiptum við Jón Ásgeir og félaga en nú er það víst Davíð Oddson sem á að gæta peninganna minna. Honum hefur þó að vísu ekki farist það neitt sérstaklega vel úr hendi undanfarið í Seðlabankanum. Þúsund kallinn sem ég átti í fyrra er nú aðeins fimm hundruð króna virði í útlöndum.

Lén í stríði stórvelda

Og nú erum við öll svolítið eins og lén í langdregnu stríði tveggja lénsherra. Forsagan er einhvern vegin svona: Frjálshyggjukenningin hans Hannesar sagði að það ætti að einkavæða bankana ásamt öllu hinu og gamla góða heildsalaveldið átti að fá þá. En allt í einu og hreint alveg óforvarindis spratt upp úr kjallara við Skútuvoginn síðhærður drengur sem yfirbauð heildsalaklíkuna og keypti til sín Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA) öllum að óvörum.

Valhöll þótti nú ekki gott að ótýndur götustrákur, eins og forsætisráðherrann kallaði hann, kæmist yfir banka. Og síðan spruttu upp deilur. Ógnardeilur. Munið þið þrjú hundruð milljónirnar? Og dómsmálin endalausu?

En drengur þessi fór víst fullgeyst í áhættufjárfestingum í útlöndum. Svo kom alþjóðleg fjármálakrísa og bankinn rauði lenti í vandræðum, vantaði skyndilega fleiri evrur en nokkur maður hefur hefur nokkurn tíman séð, til að borga skuldunautum í útlöndum. Þá steig Davíð einfaldlega níður úr svörtuloftum og hirti bankann fyrir slikk. Og þar með var búið að þjóðnýta FBA á nýjan leik. Bara sísona. Og allt í einu, eins og hendi væri veifað, er 1980 aftur komið til Íslands. Pólland er hins vegar enn á fleygiferð inn í nýja öld.

24 stundir, 3. október 2008