föstudagur, 30. maí 2008

Eftirlaunaósóminn

Þingmenn fóru í frí í gær, (það stóð í það minnsta til þegar þetta er skrifað um hádegisbil á fimmtudag). Langþráð frí eftir þrautavetur þegar efnahagslífið fór í steik og kreppan sprakk framan í andlitið á almenningi. En nú er sumarið semsé framundan og bara að ákveða hvert skuli halda, enginn lengur til að kvabba undan sérdeilis fínum eftirlaunaréttindum sem áfram tókst að verja. Þetta hafði verið nokkuð strembin varnarbarátta.

Fyrst um sinn dugði að halda málinu í skefjum með lagaþrætum - hefðbundinni þrætubókarlist - einfaldlega staðhæft að ósóminn væri stjórnarskrárvarinn og því engu hægt að breyta. Það er annars merkilegt hvað einfaldir hlutir geta flækst fyrir þingmönnum þegar kemur að þeirra eigin kjörum. En bölvuð konan, hún Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður gaf sig ekki og flutti frumvarp sem var svo ósvífið að eftirlaunaréttindi þingmanna hefðu nálgast ískyggilega það litla sem almenningur þarf að sætta sig við.

Varnar-Birgir

Þvílíkum hörmungum þurfti auðvitað að verjast og varnaráætlunin sett í hendurnar á Birgi Ármannssyni formanni allsherjarnefndar. Varnar-Birgir tók varðhlutverk sitt grafalvarlega, stakk málinu umsvifalaust ofan í skúffu og læsti með lyklinum sem Davíð gaf honum á sínum tíma. Birgir varðist síðan fimlega öllum atlögum Valgerðar, fjölmiðla og almennings við að veiða frumvarpið upp úr skúffunni. Lét sko ekki plata sig til að ræða það í nefndinni.

Á endanum kom nefndarformaður allsherjarnefndar Alþingis í sjónvarpsviðtal og útskýrði fyrir þjóðinni að almennir þingmenn hefðu auðvitað ekkert með það að gera að leggja fram lagafrumvörp, því myndi frumvarp Valgerðar áfram sitja á botni skúffunar og safna ryki eins og til stóð. Það væri nefnilega í höndum framkvæmdavaldsins að ákveða þau lög sem löggjafinn samþykkir. Mörgum þótti þetta óvenju hressandi hreinskilni af þingmanni að vera.

Samtryggingarkerfi

En auðvitað er aðeins ein ástæða fyrir því að eftirlaunalögunum var ekki breytt fyrir þinglok í gær, - einfaldlega vegna þess að þingmenn vildu það ekki. Ráðherrar, sem alemnnt koma úr röðum þingmanna, stórgræða jú á eftirlaunaósómanum. Svo einfallt er það.

Lögin fela til að mynda í sér að almennur ráðherra getur vænst um hundrað þúsund króna aukningu ofan á þann lífeyrisrétt sem fyrir var, - sem þó var ærinn. Forsætisráðherra fær um fjögur hundruð þúsund til viðbótar á mánuði. Mér er sagt að almennur ríkisstarfsmaður á sömu heildarlaunum væri 30 ár að vinna sér inn sama lífeyri og forsætisráðherrann gerir á aðeins einu ári. Svo geta menn meira að segja valið að fara á eftirlaun strax við 55 ára aldur eða þá halda áfram á vinnumarkaði og þiggja launin sín ofan á rífleg eftirlaunin.

Dúsa stjórnarandstöðunnar

Kannski er því ekki nema von að þingmenn hafi pakkað í vörn. Að vísu fæst enginn til að mæla ósómanum bót opinberlega, nema þá helst Pétur Blöndal. En aðrir þingmenn, allir nema Valgerður Bjarnadóttir semsé, en hún er jú aðeins varaþingmaður, beita sér lítt til að leiðrétta óhófið, nema ef vera skyldi Ögmundur Jónason.

Formenn stjórnaranstöðuflokkanna geta ekki heldur flúið í skjól ábyrðarleysisins. Þeir stóðu jú allir að þessum ósköpum með Davíð haustið 2003 upp á þau býtti að fá dulítinn bónus ofan á launin sín sem leiðtogar á þingi. Það var ekki fyrr en almenningur mótmælti ósómanum að þeir fóru að bakka í málinu. Fyrst náðist raunar ekki í þá, Steingrímur fór til fjalla og kom svo af fjöllum, Guðjón Arnar flúði til útlanda og Össur, sem þá var stjórnarandstöðuleiðtogi, sat á endanum hjá.

24. stundir, 30. maí 2008.