föstudagur, 16. maí 2008

Ráðleysisstjórnin

Maður á ekki að sparka í liggjandi mann, það kenndi hún amma mín mér í æsku. Því er nokkur vandi á höndum að fjalla um borgarstjórnina í Reykjavík. Líkast til er það ekkert annað en skepnuskapur að benda á vandræðagang ráðleysisstjórnarinnar í Ráðhúsinu. Auðvitað fullkomlega óviðeigandi að ræða hæfni borgarstjórans til að stýra stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar. Hvað þá að efast um leiðtogahæfileika þess manns sem gaf okkur spítnabrakið á Laugavegi á spottprís, þess manns sem nú valdar Vatnsmýrina flugrekendum til heilla, - fyrir þeim óþjóðalíð sem vill leggja iðilfagrar flugbrautirnar undir sig og reisa íbúðabyggð á skemmusvæðinu.

Borgarstjóri þeirra 6527 - og líka okkar hinna auðvitað - veit sem er að innst inni viljum við öll hafa kósí flugvöll í kvosinni, þótt við segjum kannski annað þegar við erum spurð. Eins og þegar við kusum flugvöllinn í burtu þann ólánsdag 17. mars 2001. Það var auðvitað bara óvart eins og borgarstjórinn einn veit. Það sama á við nú, atkvæðagreiðsla um flugvöllin í borgarstjórn Reykjavíkur færi ekki 14-2, - hún færi 14-1, borgarbúum í vil. Þetta sýnir einmitt svo vel hvað borgarstjórinn okkar góði er tilbúinn til að leggja mikið á sig til að hafa vit fyrir okkur þegar á þarf að halda.

Vafalaust

Heilindi borgarstjórans eru nefnilega hafin yfir vafa eins og hann minnir okkur á í hverjum einasta fjölmiðli sem hann birtist okkur borgarbúum. Því þurfum við ekkert að vera að velta okkur upp úr REI-klúðrinu hinu síðara, óvenju blómlegri spreybrúsasölu í miðbænum, hlandblautum og sprautunálalögðum stéttum við Hverfisgötu eða einstaka ráðningum á skrifstofu borgarstjóra. Það síðasttalda kemur okkur auðvitað ekkert við. Dagur segir raunar að ráðning Jakobs Frímanns Magnússonar í embætti miðborgarrabbína, allsherjarhreingerningar- og uppbyggingarmálastjóra miðborgarinnar og sérlegs listræns ráðunautar Bankastrætis og Laugavegar í frístundum hafi verið læknamistök.

(Ég er samt ekki frá því að Jakob Frímann sé einmitt hárrétti maðurinn í starfið, - foringi græna hersins orðinn eins konar yfirborgarstjóri. Vonandi tekst honum að bjarga borginni úr klóm ráðlausra ráðamanna, við skulum allavega sjá til.)

Valhopp

Og Sjálfstæðismenn skoppa bara um og valhoppa svo ósköp glaðir um grónar grundir Hallargarðsins, einkaframtakið sigrar allt að lokum hugsa þeir með sér um leið og þeir loka hliðinu á eftir sér og setja lás. Fylgið er að vísu í frjálsu falli en bráðum kemur gamli góði Villi Vill og hefst enn á ný handa við að taka bjórkæla borgarinnar úr sambandi á meðan borgin brennur á næturna. Og þá verður kannski loks eitthvað hægt að gera við kolamolana við Austurstræti og Lækjargötu sem hann lofaði svo hróðugur að endurreisa hið snarasta í sömu mynd þegar húsin brunnu um árið. Og REI maður, - jibbí jei. Þá verður aftur stuð.

Boris

Þeir voru að kjósa sér borgarstjóra í London um daginn. Litríkir menn í framboði, annars vegar hinn eldrauði Ken Livingstone og svo hægri háðfuglinn Boris Johnson sem er einhvers konar skopmynd af hinum klassíska breska íhaldsmanni af heldrimannaættum sem fer með ólíkindaleg gamanmál á sveitasetrinu sínu. Kannski einskonar sambland af Guðna Ágústssyni og Jóni Gnarr ef það hjálpar einhverjum að átta sig á kauða. Boris ætlar að ráðast gegn glæpum, laga samgöngur og koma á röð og reglu. En Boris er ekki í Reykjavík. Hér þurfum við að leita líkinga jöfnum hönum í ævintýrið um Mjallhvíti, Kardimommubæjinn og Dýrin í hálskógi til að lýsa ástandinu í borgarstjórn Reykjavíkur. Og það dugir ekki einu sinni til.

24. stundir, 16. maí 2008.