Sáum söngleik Hallgríms Helgasonar, Ástin er diskó - lífið er pönk, í forsýningu í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Frábær skemmtun.
Helsti styrkur Hallgríms sem rithöfundar er að mínu mati hvað honum er einstaklega lagið að fanga stemmningu í samfélaginu. Það tekst afar vel í þessum söngleik.
Sögusviðið er Reykjavík árið 1980, en þá var ég sjálfur aðeins ellefu ára. Framan af var ég diskómegin í tilverunni en fljótlega hneigðist ég fremur til pönks, enda mun frjórri stefna á þessum tíma. Man til að mynda eftir mér, líkast til þrettán ára, á tónleikum með Sjálfsfróun og Q4U í Tryggvagötuportinu. Bassaleikari Sjálfsfróunar lét duga að spila með einum streng í bassanum. Ég áræddi að spyrja hann hvers vegna. Svarið var að hinir strengirnir hefðu bara þvælst fyrir og þvi hefði hann tekið þá úr. Þetta þótti mikið pönk.
Eitt varð mér þó huleikið þegar ég gekk út af sýningunni í gærkvöld. Gömlu pönkararnir úr Rokki í Reykjavík hljóta að reita hár sitt og skegg (ef hárvöxtur leyfir) yfir tilhugsuninni að búið sé að stofnanavæða pönkið inn sjálft Þjóðleikhúsið.