mánudagur, 5. maí 2008

Borg Borisar

Hef verið í London nú í nokkra daga og vitaskuld fylgst með sveitastjórnarkosningunum.

Meginbaráttan var auðvitað um London, þar sem tveir furðufuglar áttust við, - rauði Ken Livingstone og pólitíski háðfuglinn Boris Johnson sem er einhvers konar skopmynd af hinum klassíska breska íhaldsmanni af heldrimannaættum. Í breskri pólitík er hann einskonar sambland af Guðna Ágústssyni og Jóni Gnarr.

En Boris, sem eins og rauði Ken er alltaf kallaður fornafni sínu, er ekki aðeins furðufugl, þetta er hnífskarpur náungi ef marka má framgöngu hans í kosningabaráttunni.

Verkamannaflokkur galt afhroð og Íhaldsflokkurinn allt í einu orðinn kjósanlegur á nýjan leik eftir meira en áratugar villuráf.

Hér er komið sumar en samt hlakka ég til að halda heim í Reykjavík á morgun.