Egill Helgason virðist skilja fjölmenningarstefnu (e. Multiculturalism) sem svo að samkvæmt henni geti innflytjendur flutt með sér lög og reglur upprunalandsins til þess lands sem það flytur til. Hann segist á móti fjölmenningarstefnu því hún heimili til að mynda öfgasinnuðum íslamistum að yfirfæra Sharia lög upp á vesturlönd. Þetta er auðvtiað alrangt. Svoleiðis hugmyndir hafa ekkert með fjölmenningarstefnu að gera.
Það samrýmist fullkomlega fjölmenningarstefnu að krefjast þess að innflytjendur aðlagist því samfélagi sem þeir flytja til, - virði lög, reglur og almenn gildi. En um leið felst í stefnunni að það samfélag sem fyrir er virði einkenni innflytjendans, til að myna að hann kunni að hafa annan tónlistarsmekk, ólíkar hugmyndir um góðan morgunverð og jafnvel að hann játi trúarbrögð sem ekki eru algeng í hinum nýju heimkynnum.
Fjölmenningarstefna er fyrst og fremst praktísk stefna, til að takast á við áskoranir hnattvæðingar. Fólk ferðast yfir landamæri, kynnist og sest jafnvel að fjarri heimahögum. Til verður skapandi samfélag og fleiri tækifæri en áður. Ólga hugmynda getum við sagt. Það er skynsamlegt að nýta þennan kraft til góðra verka frekar en að ala á andúð og tortryggni sem leiðir til ógnar og átaka.
Andstæða fjölmenningar er einmenning. Slík stefna felur í sér kröfu að allir játi sömu menningu, hafi sömu einkenni og játi til að mynda sömu trúarbrögð. Svoleiðis stefna gengur ekki upp í hnattrænum heimi, nema að við lokum landamærum á nýjan leik. Ég er nokkuð viss um að minn ágæti kunningi, Egill Helgason, aðhyllist ekki slíka stefnu. Ég vil ekki gera honum upp skoðun, en í hefðbundum skilningi á stefnunni er Egill auðvitað bullandi fjölmenningarsinni.
Fjölmenningarstefna gengur einfaldlega út á að virða ólíka menningu, að samþykkja að fólk sé ólíkt og af ólíkum uppruna. Flóknara er það ekki.
Áhugasömum er bent á áhugverðar bækur Will Kymlicka hér og hér.