þriðjudagur, 30. júní 2009

Mögulegar Icesave-leiðir

Icesave samningurinn er sannarlega vondur, - satt að segja skelfilega vondur. Aðeins eitt væri þó verra en að samþykkja hann óbreyttan, það væri að samþykkja hann alls ekki og hætta á að einangra Ísland frá alþjóðasamstarfi og út af alþjóðlegum mörkuðum. Hins vegar eru nokkrar leiðir kannski enn færar til að laga stöðuna, þó ekki væri nema agnar ögn.

Leið 1

Í fyrsta lagi gæti verið lag fyrir íslensk stjórnvöld að fara nú aftur til bresku og hollensku samninganefndanna og segja sem svo, að ómögulegt sé að koma samningum í gegnum þingið án tiltekinna lagfæringa. Bretar og Hollendingar hafa sömu hagsmuni og við af því að ná samningum, svo þeir gætu verið viljugir til að veita svolitlar tilslakanir ef það gæti bjargað málinu frá glötun.

Til að mynda mætti hugsanlega setja inn í samninginn ákvæði um tiltekna hámarksgreiðslu á ári eins og einhverjir hafa þegar lagt til. Ríki greiða um eitt prósent af landframleiðsu í aðildargjald að ESB (og fá svo endurgreiðslur úr sameiginlegum sjóðum ESB til baka) og því mætti hugsanlega miða við slíka tölu sem hámarks greiðslubyrði. Annað viðmið væri að greiðslur vegna Icesave fari ekki yfir meðaltalsgreiðslur Evrópuríkja til varnarmála sem nú eru rétt undir tveimur próentum af landsframleiðslu að jafnaði.

Annað leiðréttingarákvæði sem brýnt er að koma inn í samninginn áður en þingið samþykkir hann er að einnig verði heimilt að nýta eignir Landsbankans til að greiða vaxtakostnað lánsins, ekki aðeins höfuðstólinn.

Leið 2

Gangi ekki að ná fram slíkum breytingum með samningum við Breta og Hollendinga getur Alþingi auðvitað sjálft sett einhliða einhverja slíka fyrirvara við samþykki sitt á ríkisábyrgð lánasamningsins. Þá verður það í höndum bresku og hollensku ríkisstjórnanna að gera athugasemdir við málsmeðferðina og meta hvort ríkin samþykki slíka meðhöndlun. Það verður þá þeirra að rifta samningum, ekki okkar.

Kannski er slíku tilfelli snjallara að hafa fyrirvarana óljósa, hnykkja á endurskoðunarákvæðum og lýsa því yfir að íslenska ríkið verði að hafa burði til að standa við samninginn síðar. Að nokkrum árum liðnum taka ný stjórnvöld á Ísland málið svo aftur upp við ný stjórnvöld í Bretlandi og í Hollandi á grundvelli þess fyrirvara.

Leið 3

Þriðja leiðin er náskyld leið 2 en er hins vegar nokkuð lævísari. Hún felst í þvi að samþykkja samninginn eins og hann kemur af skepnunni en með það fyrir augum að taka hann upp síðar meir innan ESB. Ísland yrði þá um leið að stefna inn í Evrópusambandið og ná að klófesta evruna áður en sjö ára griðartímanum líður. Þá verðum við nefnilega loks komin í jafna samningsstöðu gagnvart Bretum og Hollendum. Svo, þegar líður að fyrstu afborgun, bregðum við einfaldlega á það ráð að höfða mál fyrir Evrópudómstólnum – sem aðilarríki ESB - á þeim forsendum að samningurinn hafi verið ólöglegur nauðarsamningur sem við hefðum verið þvinguð til að samþykkja.

Ég veit það ekki. Kannski eru svona hundakúnstir allt of óheiðalegar fyrir heiðvirða þjóð en í öllu falli væru allar þessar þrjár leiðir skárri heldur en að hafna samningum og gefa dauðann og djöfulinn í umheiminn á sama tíma og Ísland gengur í gegnum mestu efnahagsörðuleika hins unga lýðveldis.

fimmtudagur, 25. júní 2009

Óvéfengjanleg sérstaða þjóðarinnar

Meginniðurstaða doktorsrannsóknar minnar í bókinni „Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar" er að orðræða sjálfstæðisbaráttunnar móti enn umræður um tengsl Íslands við önnur lönd.

Eitt þrálátasta stefið lýtur að óvéfengjanlegri sérstöðu þjóðarinnar sem gengur jafnt í gegnum umræður okkar Íslendinga um tengslin við NATO, EFTA, EES og ESB.

Í umræðunni um EFTA-aðildina á sjöunda áratugnum sagði Tómas Árnason, þingmaður Framsóknarflokks, til að mynda: „Íslenzka þjóðin hefur óvéfengjanlega mikla sérstöðu meðal þjóðanna og jafnvel meðal þeirra þjóða, sem eru aðilar að EFTA. Það er eðlilegt, að tengsl Íslands við EFTA markist af þeirri sérstöðu.“ Með þessu móti vildi hann réttlæta margvísleg „sérréttindi" Íslandi til handa í samstarfinu.

Hér má sjá ágrip, formála, efnisyfirlit og inngang en bókin fæst einnig í Eymundsson í Austurstræti og Bókssölu stúdenta á háskólatorgi.

þriðjudagur, 23. júní 2009

„Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar"

Ég varði doktorsrannsókn mína við Háskóla Íslands í gær: „Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar" - áhrif þjóðernishugmynda á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda. Bókin fæst í Bóksölu stúdenta.

Ágrip

Í rannsókninni er spurt hvers vegna Íslendingar kusu að tengjast Evrópusamrunanum í gegnum Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Schengen-landamærasamstarfið en ekki með fullri aðild að Evrópusambandinu. Rannsóknin nær fram til maí 2009. Tekið er til skoðunar hvort skýri betur þessa afstöðu íslenskra stjórnmálamanna, efnahagslegir hagsmunir eða hugmyndir um fullveldi þjóðarinnar.

Ritgerðinni er skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um þá kenningarlegu umræðu sem fram hefur farið um tengsl ríkja við Evrópusamrunann, í öðrum hluta eru tengsl Íslands við Evrópusamrunann til skoðunar og í þeim þriðja er orðræða íslenskra stjórnmálamanna um þátttöku í evrópsku samstarfi greind í þremur afmörkuðum umræðulotum: Fyrst í aðdraganga EFTA-aðildar (1970), síðan í aðdraganda EES-aðildar (1994) og að lokum afmarkað tímabil þegar rætt var um hugsanlega inngöngu í ESB (2000 til 2003).

Innan vébanda frjálslyndrar milliríkjahyggju er því haldið fram að hagsmunir leiðandi atvinnugreina séu ráðandi um tengsl Norðurlandaríkjanna við Evrópusamrunann. Samkvæmt kenningunni eru það hagsmunir í sjávarútvegi sem móta tengsl Íslands við ESB. Sú staðreynd að ekki hafði verið látið reyna á sjávarútvegsmálið í aðildarviðræðum bendir þó til að fleiri breytur geti skipt máli. Í rannsókninni er aðferðum síðformgerðarhyggju og mótunarhyggju beitt til að greina hvort hugmyndir Íslendinga um fullveldið og þjóðina móti afstöðu íslenskra stjórnmálamanna til Evrópusamstarfsins og þá hvernig.

Í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld varð til einörð og að nokkur leyti sérstök þjóðernisstefna þar sem megináhersla var lögð á fullveldi þjóðarinnar sem heildar – fremur en á frelsi einstaklingsins sem hafði verið einn meginþráður evrópskrar frjálslyndisstefnu. Í efnahagslegu tilliti hafa íslensk stjórnvöld engu að síður álíka þörf og stjórnvöld annars staðar í Evrópu til að taka þátt í samrunaþróuninni, og kann þetta að skýra veru Íslands í EES. Samningurinn veitir Íslendingum aðild að innri markaði ESB en um leið samþykktu íslensk stjórnvöld að lúta reglum ESB í samstarfinu – og þar með afmarkað framsal ákvarðanatöku og ríkisvalds.

Þessi togstreita, á milli efnahagslegra hagsmuna og hugmynda um fullveldi íslensku þjóðarinnar, hefur síðan framkallað eins konar rof á milli orðræðunnar um hina frjálsu og fullvalda íslensku þjóð og þess raunveruleika sem blasir við í samstarfinu.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að arfleið sjálfstæðisbaráttunnar hafi haft mótandi áhrif á orðræðu íslenskra stjórnmálamanna í Evrópumálum. Sérstök áhersla á fullveldi þjóðarinnar hefur frá því á 19. öld verið einn helsti grundvöllur íslenskra stjórnmála. Af þeim sökum fellur þátttaka í yfirþjóðlegum stofnunum Evrópusambandsins illa að ríkjandi orðræðu þar sem megináhersla er lögð á vernd fullveldisins og eilífa sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar.

Hér er svo sýnishorn þar sem sjá má ágrip á ensku og íslensu, formála, efnisyfirlit og inngang.

sunnudagur, 7. júní 2009

Iceslave samkomulagið

Bretar eru glaðir með Icesave-samkomulagið, - eðlilega, enda unnu þeir fullnaðarsigur í málinu. Íslenska þjóðin verður skuldbundin þeim í breskum pundum áratugi inn í framtíðina. Íslensk stjórnvöld gera samkomulagið í þeirri veiku von að eignir Landsbankans dugi langleiðina upp í ógnarskuldina, heila 65o milljarða íslenskra króna. Hér er þó engan veginn á vísan að róa, enginn veit hvert virði eignanna eða gengi krónunnar verður í framtíðinni.

Athygli vekur að Íslendingar bera alla áhættuna en Bretar ganga frá samningaborðinu með bæði axlabönd og belti. Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi og víðar þá fengu íslensk stjórnvöld gullið tækifæri til að varpa ábyrgðum á Icesave-skuldunum yfir á bresk stjórnvöld um leið og þau beittu okkur hryðjuverkalögum og frystu eignir bankans í Bretlandi. Sem var auðvitað kolólögleg aðgerð, þverbrýtur til að mynda EES-samninginn og fleiri alþjóðalög.

Þetta er til að mynda í samræmi við niðurstöðu skýrslu fjárlaganefndar breska þingsins þar sem fram kemur að ekki hafi verið tilefni til að beita Ísland hryðjuverkalögunum.

Því er óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld hafi samþykkt að skuldbinda þjóðina á klafa skulda sem augljóslega eru á ábyrgð þeirra Alistair Darlings og Gordon Browns. Menn skyldu hafa í huga að þetta er ekki aðeins lagalegt álitamál, heldur pólitískt: Alþjóðastjórnmál lúta öðrum lögmálum heldur en innalandsstjórnmál og þjóðarréttur er mun loðnara fyrirbæri en landsréttur.

Á þessum grunni hef ég haldið því fram að þegar Bretar beittu Ísland hryðjuverkalögunum hafi orðið til tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld, - að koma með krók á móti bragði og færa fram þau rök, að þar með hefðu bresk stjórnvöld tekið yfir skuldbindingar þeirra fjármálafyrirtækja sem þau tóku traustataki með ólögmætum hætti.

En nú er semsé búið að reyra skuldaklafann pikkfastan á bak allra Íslendinga. Ég verð að viðurkenna að mér þykir svolítið erfitt að fagna slíkri niðurstöðu.