þriðjudagur, 26. október 2010

Að vera í framboði

Yfir fimm hundruð manns eru í kjöri til stjórnlagaþings en aðeins 25 til 31 sæti í boði, þannig að aðeins er um fimm prósenta séns á að ná kjöri. Landskjörstórn hefur nú staðfest að framboð mitt er gilt og því er ekki seinna að vænna en að gera kjósendum grein fyrir því áherslum frambjóðandans.

Vissulega er rétt að ganga með opinn hug til stjórnlagaþings en sjálfum finnst mér afar mikilvægt að núna eftir hrun verði lagður nýr sáttargrunnur undir íslenskt samfélag með allsherjarendurskoðun á stjórnarskránni.

Ég myndi til að mynda vilja taka til umræðu að kjósa forsætisráðherra eða jafnvel ríkisstjórnina alla beinni kosningu og svo væri brýnt að ná samstöðu um að opna fyrir persónukjör í þingkosningum í einhverri mynd og brjóta þannig upp ræði stjórnmálaflokkanna. Slíkt er þó vandasamt og viss hætta á lýðskrumi sem getur fylgt auknu persónukjöri. Því þarf að vanda hér sérlega vel til verka.

Ég er enn fremur áhugamaður um að beita þjóðaratkvæðgagreiðslum í auknu mæli og væri einnig til í að endurskoða kjördæmaskiptinguna, jafnvel að afnema hana ef samstaða næðist um slíkt.

Þá tel ég það enn fremur vera umræðunnar virði að ræða það í fúlustu alvöru hvort mögulega ætti að lækka kosningaaldurinn í sextán ár.

Stjórnlagaþingi bíður vandasamt verkefni. Öllu skiptir að fulltrúar á þinginu nái saman um heildstætt frumvarp að nýrri stjórnarskrá, annars er hætta á að Alþingi muni geta hunsað vinnu stjórnlagaþingsins.

Um frambjóðandann:

Eiríkur Bergmann Einarsson er doktor í stjórnmálafræði, dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Höfundur fjölda bóka og greina um þjóðfélagsmál, einkum um tengsl Íslands við umheiminn. Hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, DV og breska dagblaðið The Guardian. Eiríkur hefur kennt og tekið þátt í margvíslegu rannsóknastarfi við fjölda háskóla, bæði á Íslandi og víða um Evrópu. Tók á fyrri tíð þátt í margsvíslegu stjórnmálastarfi hérlendis og erlendis en er nú óflokksbundinn. Í sambúð og fjögurra barna faðir.

Nánari upplýsingar má finna á:


miðvikudagur, 30. desember 2009

Týndi áratugurinn

Útreikningar talnaglöggra hagfræðinga sýna að eftir bankahrunið hafi efnahagur Íslands færst aftur um áratug eða svo. Í efnahagslegu tilliti höfum við semsé glatað heilum áratug. Og meiru til raunar því nú skuldum við svo miklu meira en áður.

Við lok fyrsta áratugar nýrrar þúsaldar, eftir kerfishrunið sem varð í fyrrahaust, getur því verið sársaukafullt að horfa í baksýnisspegilinn. Fyrir vegferðina fram á við er það hins vegar nauðsynlegt.

Í upphafi aldarinnar virtust okkur Íslendingum allir vegir færir. Við fórum létt með að hrista af okkur eftirhreytur netbólunnar sem sprakk eins og hver önnur sápukúla og hófum að klífa upp á efstu tinda í alþjóðavæddum fyrirtækjarekstri.

Með aðstoð nánast ókeypis lánsfjár gleyptu nýeinkavæddir bankarnir hvert alþjóðlega stórfyrirtækið á fætur öðru og kornungir útrásardrengir vopnaðir nýslegnu viðskiptafræðiprófi og gloppóttri barnaskólaensku settust í stjórnir rótgróinna erlendra félaga. Talað var um nýtt hagkerfi þar sem lögmál þess gamla giltu ekki lengur.

Hver skuldsetta yfirtakan á fætur annarri var klöppuð upp sem viðskipti ársins: Magasin du Nord, Illum, Nyhedsavisen, Debenhams, House of Fraiser, Heritable bank, FIH-Erhverfsbank, Singer&Friedlander. Flest okkar hrifust með. Að beiðni djarfhuga viðskiptamanna nútímans afnámu stjórnvöld svo gamaldags reglur og glansblöðin bjuggu til stjörnur úr skuldakóngunum.

Árið 2006 lagði Viðskiptaráð til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin „enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum“. Í ímyndarskýrslu forsætisráðuneytisins frá því í mars 2008 var fjallað um sérstaka eðliseiginleika „sem aðgreinir Íslendinga frá öðrum þjóðum“ og geri þeim kleift að skara frammúr á alþjóðavettvangi: „Mikilvægt er að tryggja að Ísland verði áfram „best í heimi“,“ sögðu skýrsluhöfundar í feitletraðri samantekt.

Náttúruval á sögueyjunni
Máttastólpar samfélagsins klöppuðu flestallir sama stein. Í ræðu í London árið 2005 leitaðist sjálfur forsetinn við að skýra út fyrir útlendingum eðlislæg sérkenni íslensku útrásarvíkinganna sem vegna einstaks náttúruvals á sögueyjunni myndu nánast óhjákvæmilega sigra heiminn.

Við blasir kenning um að á Íslandi hafi orðið til algjörlega sérstök þjóð með einstaka eðlislæga hæfileika sem hafi alla burði til forystu í heiminum. En að hún hafi lengst af verið takmörkuð af einangrun sinni og fámenni. Svo þegar hömlurnar hurfu með aukinni hnattvæðingu og opnun fjármálamarkaða hafi þjóðin sprungið út og blómstrað.

Hér var semsé komin fram einhvers konar eðlislæg skýring á risi íslenska efnahagsundursins og því haldið fram í fúlustu alvöru að sökum náttúruvals verði Íslendingar í forystu í alþjóðlegum fyrirtækjarekstri. Í ræðu í Los Angelis árið 2000 gekk forsetinn jafnvel svo langt að bjóða Bandaríkjamönnum að taka þátt í þessari nánast óumflýjanlegu vegferð Íslendinga, annars myndu þeir sitja eftir með sárt ennið við upphaf nýrrar þúsaldar.

Mér er að vísu til efs að allur almenningur hafi endilega gengið með þessar grillur í kollinum en rannsókinir sína að þegar kemur að umræðu um tengslin við önnur lönd hafa íslenskir stjórnmálamenn einhverra hluta vegna hamrað á hugmyndinni um óvéfengjanlega sérstöðu íslensku þjóðarinnar.

Sitt hvor hliðin á sama pening
Þegar skýjaborg útrásarhagkerfisins hrundi svo yfir okkur í fyrrahaust kom smám saman fram önnur hugmynd meðal sumra afla í samfélaginu. Nú vorum við ekki lengur að sigra heiminn heldur allt í einu orðin fórnarlamb vondra útlendinga sem áttu að hafa setið á svikráðum um þessa saklausu smáþjóð í norðri.

Þegar að er gáð hefur þó kannski ekki orðið jafn mikill viðsnúningur og ætla mætti. Hugmyndin um umsátrið er nefnilega af nokkurn vegin sama meiði og hugmyndin um yfirburðaþjóðina. Sitt hvor hliðin á sama pening. Myndin hafði einfaldlega snúist við

En nú er áratugur öfganna vonandi á enda runninn. Við erum hvorki nein sérstök yfirburðaþjóð né saklaust fórnarlamb utanaðkomandi umsáturs. Á Íslandi býr hins vegar vel menntuð þjóð i gjöfulu landi sem hefur alla burði til að búa þegnum sínum góð lífskjör.

Verkefnið framundan hlýtur því að vera að vinsa úr hvað í þessum hugmyndum og allri þeirri umræðu sem fram hefur farið um sérstöðu íslensku þjóðarinnar er nýtilegt til uppbyggingar í samfélaginu og hvað er bókstarflega stórhættulegt.

Fréttablaðið 30. janúar 2009

mánudagur, 21. desember 2009

Íslensk leikkona slær í gegn í Danmörku

Fréttablaðið segir í dag frá umfjöllun í Berlingske Tidende um tvo íslenska rithöfunda, þau Hallgrím Helgason og Yrsu Sigurðardóttur. Umfjöllunin sem er á síðu tólf í menningarkálfi blaðsins síðastliðinn föstudag er lofleg og vissulega frásagnarverð.

Forsíða blaðsins í heild sinni sem og síða tvö eru hins vegar lögð undir umfjöllun um nýjustu leikhússtjörnu Danmerkur. Blaðið heldur hreinlega ekki vatni yfir óvenju hæfileikaríkri 33 ára leikkonu sem nýlega hafi komið fram á sjónarsviðið og meðal annars hlotið afar eftirsótt verðlaun; Reumert Talentprisen 2009. Í umfjöllun sinni er bent á að danskir gangrýnendur hafi beðið í röðum við að bera lof á frammistöðu leikkonunnar í sýningunni Seest. Leikkonan hæfileikaríka heitir Stefanía Ómarsdóttir og er alveg jafn íslensk og rithöfundarnir góðu sem fjallað er um inni í blaðinu.

Mikið væri nú gaman ef íslenskir fjölmiðlar gætu einnig sagt frá afrekum leikkonunnar hæfileikaríku úr Garðabæ.

fimmtudagur, 10. desember 2009

Fræðigrein: Sense of Sovereignty

Í dag kemur út tímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla sem Háskóli Íslands gefur úr. Af því tilefni mun ég nú á eftir halda erindi um ritrýnda grein í tímaritinu. Greinin heitir Sense of Sovereignty: How national sentiments have influenced Iceland's European policy.

Útdrátturinn er svona:

This paper asks why Iceland had until July 2009 chosen to participate in the European project through the EEA and Schengen agreements but not with full membership in the EU. It analyses if and how ideas on the Icelandic nation and its sovereignty affects the stance Icelandic politicians have taken towards the European project. Icelanders’ struggle for independence in the 19th century created a special kind of nationalism which gives prominence to the sovereignty of the nation as a whole.

Economically, however, Iceland feels the same need as other European states to participate in European co-operation, which can explain its membership in the EEA. The agreement brings Iceland into the European single market, but at a cost: Iceland has de-facto agreed to adopt the EU’s legislation within the boundaries of the agreement, and thus a transfer of decision making and domestic governmental power to the EU. This dilemma, between economic interests on the one hand and ideas on the sovereignty of the Icelandic nation on the other, has created a kind of a rift between the emphasis on the free and sovereign nation and the reality Iceland is faced with in the co-operation.

The inheritance of the independent struggle still directs the discourse Icelandic politicians use in the debate on Europe. A strong emphasis on sovereignty has become the foundation on which Icelandic politics rests. Participation in EU’s supra-national institutions falls, in a way, outside the framework of Icelandic political discourse, which highlights Iceland’s sovereignty and stresses an everlasting independence struggle.

Greinin í heild er hér.

laugardagur, 28. nóvember 2009

Er Dubai nýja Ísland? - ný grein í The Guardian

Dubai er á fallanda fæti. Breskir fjölmiðlar eru ansi uppteknir af samanburðinum við Ísland. Ritstjóri minn á The Guardian bað mig því um að setja saman svolitla grein um hvað þeir í Dubai gætu lært af reynslu Íslands. Greinin er hér.

þriðjudagur, 3. nóvember 2009

Erindi: Will Iceland make it to the EU?

Vel fer á því að Stefán Haukur Jóhannesson leiði aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið fyrir okkar hönd. Hann er enda einn okkar reyndasti og öflugasti embættismaður. Er nú sendiherra okkar í Brussel og gjörþekkir hina flóknu þræði í embættismannaveldi ESB.

En mun Ísland ná inn í ESB? Það er hins vegar með öllu óvíst, sér í lagi vegna andstöðu hér innanlands sem grundvallast ekki síst á afstöðu okkar til fullveldisins, eins og ég ræddi í erindi við Tækni og vísindaháskólann í Þrándheimi (NTNU) í síðustu viku, sjá glærur hér: Will Iceland make it to the EU?

mánudagur, 2. nóvember 2009

Fræðigrein: Er Ísland fullvalda?

Íslensk stjórnmálahefð mótaðist að miklu leyti í sjálfstæðisbaráttunni og sú orðræða sem þá varð til lifir enn góðu lífi í íslenskri stjórnmálaumræðu. Grundvallarhugmynd þjóðernisstefnunnar var að íslensk þjóð ætti að vera frjáls og fullvalda í eigin landi. Sjálfstæðið varð hið endanlega markmið frelsisbaráttunnar og Íslendingar litu á fullveldið sem einhvers konar endurreisn þjóðveldisins. Þrátt fyrir að sjálfstæðisbarátta Íslendinga stæði í nánu samspili við álíka hugmyndafræðilegar hræringar í Evrópu virtust Íslendingar líta svo á að sjálfstæðisbaráttan væri að vissu leyti séríslenskt fyrirbæri. Fullveldið og þjóðin urðu að grundvallarhugtökum í íslenskum stjórnmálum.

Svona hefst fræðigrein eftir mig sem finna má í ritinu Rannsóknir í félagsvísindum X, sjá hér: Er Ísland fullvalda?

Afar einfölduð niðurstaða er sú að Ísland sé í raun alveg jafn fullvalda og önnur lýðfrjáls ríki Vesturlanda en að hugmyndir Íslendinga um fullveldið sem þróuðust í sjálfstæðisbaráttunni séu sumpart íhaldssamari heldur en gerist og gengur víða annars staðar.

Ég flutti svo samhljóða erindi á Þjóðaspeglinum í Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag, sjá glærur hér.