föstudagur, 30. maí 2008

Eftirlaunaósóminn

Þingmenn fóru í frí í gær, (það stóð í það minnsta til þegar þetta er skrifað um hádegisbil á fimmtudag). Langþráð frí eftir þrautavetur þegar efnahagslífið fór í steik og kreppan sprakk framan í andlitið á almenningi. En nú er sumarið semsé framundan og bara að ákveða hvert skuli halda, enginn lengur til að kvabba undan sérdeilis fínum eftirlaunaréttindum sem áfram tókst að verja. Þetta hafði verið nokkuð strembin varnarbarátta.

Fyrst um sinn dugði að halda málinu í skefjum með lagaþrætum - hefðbundinni þrætubókarlist - einfaldlega staðhæft að ósóminn væri stjórnarskrárvarinn og því engu hægt að breyta. Það er annars merkilegt hvað einfaldir hlutir geta flækst fyrir þingmönnum þegar kemur að þeirra eigin kjörum. En bölvuð konan, hún Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður gaf sig ekki og flutti frumvarp sem var svo ósvífið að eftirlaunaréttindi þingmanna hefðu nálgast ískyggilega það litla sem almenningur þarf að sætta sig við.

Varnar-Birgir

Þvílíkum hörmungum þurfti auðvitað að verjast og varnaráætlunin sett í hendurnar á Birgi Ármannssyni formanni allsherjarnefndar. Varnar-Birgir tók varðhlutverk sitt grafalvarlega, stakk málinu umsvifalaust ofan í skúffu og læsti með lyklinum sem Davíð gaf honum á sínum tíma. Birgir varðist síðan fimlega öllum atlögum Valgerðar, fjölmiðla og almennings við að veiða frumvarpið upp úr skúffunni. Lét sko ekki plata sig til að ræða það í nefndinni.

Á endanum kom nefndarformaður allsherjarnefndar Alþingis í sjónvarpsviðtal og útskýrði fyrir þjóðinni að almennir þingmenn hefðu auðvitað ekkert með það að gera að leggja fram lagafrumvörp, því myndi frumvarp Valgerðar áfram sitja á botni skúffunar og safna ryki eins og til stóð. Það væri nefnilega í höndum framkvæmdavaldsins að ákveða þau lög sem löggjafinn samþykkir. Mörgum þótti þetta óvenju hressandi hreinskilni af þingmanni að vera.

Samtryggingarkerfi

En auðvitað er aðeins ein ástæða fyrir því að eftirlaunalögunum var ekki breytt fyrir þinglok í gær, - einfaldlega vegna þess að þingmenn vildu það ekki. Ráðherrar, sem alemnnt koma úr röðum þingmanna, stórgræða jú á eftirlaunaósómanum. Svo einfallt er það.

Lögin fela til að mynda í sér að almennur ráðherra getur vænst um hundrað þúsund króna aukningu ofan á þann lífeyrisrétt sem fyrir var, - sem þó var ærinn. Forsætisráðherra fær um fjögur hundruð þúsund til viðbótar á mánuði. Mér er sagt að almennur ríkisstarfsmaður á sömu heildarlaunum væri 30 ár að vinna sér inn sama lífeyri og forsætisráðherrann gerir á aðeins einu ári. Svo geta menn meira að segja valið að fara á eftirlaun strax við 55 ára aldur eða þá halda áfram á vinnumarkaði og þiggja launin sín ofan á rífleg eftirlaunin.

Dúsa stjórnarandstöðunnar

Kannski er því ekki nema von að þingmenn hafi pakkað í vörn. Að vísu fæst enginn til að mæla ósómanum bót opinberlega, nema þá helst Pétur Blöndal. En aðrir þingmenn, allir nema Valgerður Bjarnadóttir semsé, en hún er jú aðeins varaþingmaður, beita sér lítt til að leiðrétta óhófið, nema ef vera skyldi Ögmundur Jónason.

Formenn stjórnaranstöðuflokkanna geta ekki heldur flúið í skjól ábyrðarleysisins. Þeir stóðu jú allir að þessum ósköpum með Davíð haustið 2003 upp á þau býtti að fá dulítinn bónus ofan á launin sín sem leiðtogar á þingi. Það var ekki fyrr en almenningur mótmælti ósómanum að þeir fóru að bakka í málinu. Fyrst náðist raunar ekki í þá, Steingrímur fór til fjalla og kom svo af fjöllum, Guðjón Arnar flúði til útlanda og Össur, sem þá var stjórnarandstöðuleiðtogi, sat á endanum hjá.

24. stundir, 30. maí 2008.

miðvikudagur, 21. maí 2008

Fjölmenning vs. einmenning

Egill Helgason virðist skilja fjölmenningarstefnu (e. Multiculturalism) sem svo að samkvæmt henni geti innflytjendur flutt með sér lög og reglur upprunalandsins til þess lands sem það flytur til. Hann segist á móti fjölmenningarstefnu því hún heimili til að mynda öfgasinnuðum íslamistum að yfirfæra Sharia lög upp á vesturlönd. Þetta er auðvtiað alrangt. Svoleiðis hugmyndir hafa ekkert með fjölmenningarstefnu að gera.

Það samrýmist fullkomlega fjölmenningarstefnu að krefjast þess að innflytjendur aðlagist því samfélagi sem þeir flytja til, - virði lög, reglur og almenn gildi. En um leið felst í stefnunni að það samfélag sem fyrir er virði einkenni innflytjendans, til að myna að hann kunni að hafa annan tónlistarsmekk, ólíkar hugmyndir um góðan morgunverð og jafnvel að hann játi trúarbrögð sem ekki eru algeng í hinum nýju heimkynnum.

Fjölmenningarstefna er fyrst og fremst praktísk stefna, til að takast á við áskoranir hnattvæðingar. Fólk ferðast yfir landamæri, kynnist og sest jafnvel að fjarri heimahögum. Til verður skapandi samfélag og fleiri tækifæri en áður. Ólga hugmynda getum við sagt. Það er skynsamlegt að nýta þennan kraft til góðra verka frekar en að ala á andúð og tortryggni sem leiðir til ógnar og átaka.

Andstæða fjölmenningar er einmenning. Slík stefna felur í sér kröfu að allir játi sömu menningu, hafi sömu einkenni og játi til að mynda sömu trúarbrögð. Svoleiðis stefna gengur ekki upp í hnattrænum heimi, nema að við lokum landamærum á nýjan leik. Ég er nokkuð viss um að minn ágæti kunningi, Egill Helgason, aðhyllist ekki slíka stefnu. Ég vil ekki gera honum upp skoðun, en í hefðbundum skilningi á stefnunni er Egill auðvitað bullandi fjölmenningarsinni.

Fjölmenningarstefna gengur einfaldlega út á að virða ólíka menningu, að samþykkja að fólk sé ólíkt og af ólíkum uppruna. Flóknara er það ekki.

Áhugasömum er bent á áhugverðar bækur Will Kymlicka hér og hér.

mánudagur, 19. maí 2008

Ótti Magnúsar

Í kjölfar vandræðagangs Magnúsar Þórs Hafsteinssonar á Akranesi hafa menn verið að velta fyrir sér stefnu Frjálslynda flokksins í útlendingamálum. Ég gerði dulitla úttekt á því sem nýverið birtist í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinin er hér.

laugardagur, 17. maí 2008

Fjögur fræknu

Ég hef tekið eftir í fjölmiðlum að Páll Óskar talar gjarnan um hin fjögur stóru ríki í Evrópu í tengslum við Evróvisjón keppnina og nefnir þá til sögunnar Bretland, Þýskaland, Frakkland og Spán. Þessi ríki teljast vissulega til stærri ríkja í Evrópu en eru alls ekki ein í þeim hópi.

Einhverra hluta vegna nefnir Páll Óskar ekki Pólland sem er svipað að mannfjölda og Spánn og ekki heldur Úkraínu sem er mun fjölmennara. Þá fær langstærsta ríkið, Rússland, ekki að vera með í upptalningunni og heldur ekki Tyrkland sem er nálega tvöfallt fjölmennara en Spánn. Í landfræðilegum skilningi eru Rússland og Tyrkland aðeins að hluta til í Evrópu - eins og Ísland - en eigi að síður fullgildir þátttakendur í söngvakeppni Evrópu.

Ég átta mig því ekki almennilega á hverju þessi skipting byggir. Kannski er ég eitthvað að misskilja þetta.

föstudagur, 16. maí 2008

Ráðleysisstjórnin

Maður á ekki að sparka í liggjandi mann, það kenndi hún amma mín mér í æsku. Því er nokkur vandi á höndum að fjalla um borgarstjórnina í Reykjavík. Líkast til er það ekkert annað en skepnuskapur að benda á vandræðagang ráðleysisstjórnarinnar í Ráðhúsinu. Auðvitað fullkomlega óviðeigandi að ræða hæfni borgarstjórans til að stýra stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar. Hvað þá að efast um leiðtogahæfileika þess manns sem gaf okkur spítnabrakið á Laugavegi á spottprís, þess manns sem nú valdar Vatnsmýrina flugrekendum til heilla, - fyrir þeim óþjóðalíð sem vill leggja iðilfagrar flugbrautirnar undir sig og reisa íbúðabyggð á skemmusvæðinu.

Borgarstjóri þeirra 6527 - og líka okkar hinna auðvitað - veit sem er að innst inni viljum við öll hafa kósí flugvöll í kvosinni, þótt við segjum kannski annað þegar við erum spurð. Eins og þegar við kusum flugvöllinn í burtu þann ólánsdag 17. mars 2001. Það var auðvitað bara óvart eins og borgarstjórinn einn veit. Það sama á við nú, atkvæðagreiðsla um flugvöllin í borgarstjórn Reykjavíkur færi ekki 14-2, - hún færi 14-1, borgarbúum í vil. Þetta sýnir einmitt svo vel hvað borgarstjórinn okkar góði er tilbúinn til að leggja mikið á sig til að hafa vit fyrir okkur þegar á þarf að halda.

Vafalaust

Heilindi borgarstjórans eru nefnilega hafin yfir vafa eins og hann minnir okkur á í hverjum einasta fjölmiðli sem hann birtist okkur borgarbúum. Því þurfum við ekkert að vera að velta okkur upp úr REI-klúðrinu hinu síðara, óvenju blómlegri spreybrúsasölu í miðbænum, hlandblautum og sprautunálalögðum stéttum við Hverfisgötu eða einstaka ráðningum á skrifstofu borgarstjóra. Það síðasttalda kemur okkur auðvitað ekkert við. Dagur segir raunar að ráðning Jakobs Frímanns Magnússonar í embætti miðborgarrabbína, allsherjarhreingerningar- og uppbyggingarmálastjóra miðborgarinnar og sérlegs listræns ráðunautar Bankastrætis og Laugavegar í frístundum hafi verið læknamistök.

(Ég er samt ekki frá því að Jakob Frímann sé einmitt hárrétti maðurinn í starfið, - foringi græna hersins orðinn eins konar yfirborgarstjóri. Vonandi tekst honum að bjarga borginni úr klóm ráðlausra ráðamanna, við skulum allavega sjá til.)

Valhopp

Og Sjálfstæðismenn skoppa bara um og valhoppa svo ósköp glaðir um grónar grundir Hallargarðsins, einkaframtakið sigrar allt að lokum hugsa þeir með sér um leið og þeir loka hliðinu á eftir sér og setja lás. Fylgið er að vísu í frjálsu falli en bráðum kemur gamli góði Villi Vill og hefst enn á ný handa við að taka bjórkæla borgarinnar úr sambandi á meðan borgin brennur á næturna. Og þá verður kannski loks eitthvað hægt að gera við kolamolana við Austurstræti og Lækjargötu sem hann lofaði svo hróðugur að endurreisa hið snarasta í sömu mynd þegar húsin brunnu um árið. Og REI maður, - jibbí jei. Þá verður aftur stuð.

Boris

Þeir voru að kjósa sér borgarstjóra í London um daginn. Litríkir menn í framboði, annars vegar hinn eldrauði Ken Livingstone og svo hægri háðfuglinn Boris Johnson sem er einhvers konar skopmynd af hinum klassíska breska íhaldsmanni af heldrimannaættum sem fer með ólíkindaleg gamanmál á sveitasetrinu sínu. Kannski einskonar sambland af Guðna Ágústssyni og Jóni Gnarr ef það hjálpar einhverjum að átta sig á kauða. Boris ætlar að ráðast gegn glæpum, laga samgöngur og koma á röð og reglu. En Boris er ekki í Reykjavík. Hér þurfum við að leita líkinga jöfnum hönum í ævintýrið um Mjallhvíti, Kardimommubæjinn og Dýrin í hálskógi til að lýsa ástandinu í borgarstjórn Reykjavíkur. Og það dugir ekki einu sinni til.

24. stundir, 16. maí 2008.

fimmtudagur, 8. maí 2008

Royal með osti

Hef ekki getað varist kjánahrollinum sem hríslast um mig í hvert sinn sem fréttir berast af heimsókn danska kóngafólksins sem hér er í túristaferð. Þetta er óttalega tilgangslaust prjál.

Ég hef búið bæði í Danmörku og Noregi og veit að margir hafa áhuga fyrir þessu liði, þótt ég hafi aldrei skilið hvers vegna. Konungsfjölskyldur Norðurlanda eru arfleið kúgunar.

Þótt kóngalið Norðurlanda myndi allt leggja niður störf (er það annars starf að vera royal?) þá er mér til efs að það myndi hafa áhrif á nokkurn mann. Þetta er með öllu óþarft.

Og bara svo því sé til haga haldið, þá á það sama við um íslenska forsetaembættið. Ólafur hefur svo sem staðið sig ágætlega, - en embættið er eigi að síður óþarft.

mánudagur, 5. maí 2008

Borg Borisar

Hef verið í London nú í nokkra daga og vitaskuld fylgst með sveitastjórnarkosningunum.

Meginbaráttan var auðvitað um London, þar sem tveir furðufuglar áttust við, - rauði Ken Livingstone og pólitíski háðfuglinn Boris Johnson sem er einhvers konar skopmynd af hinum klassíska breska íhaldsmanni af heldrimannaættum. Í breskri pólitík er hann einskonar sambland af Guðna Ágústssyni og Jóni Gnarr.

En Boris, sem eins og rauði Ken er alltaf kallaður fornafni sínu, er ekki aðeins furðufugl, þetta er hnífskarpur náungi ef marka má framgöngu hans í kosningabaráttunni.

Verkamannaflokkur galt afhroð og Íhaldsflokkurinn allt í einu orðinn kjósanlegur á nýjan leik eftir meira en áratugar villuráf.

Hér er komið sumar en samt hlakka ég til að halda heim í Reykjavík á morgun.

fimmtudagur, 1. maí 2008

Lífið er pönk

Sáum söngleik Hallgríms Helgasonar, Ástin er diskó - lífið er pönk, í forsýningu í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Frábær skemmtun.

Helsti styrkur Hallgríms sem rithöfundar er að mínu mati hvað honum er einstaklega lagið að fanga stemmningu í samfélaginu. Það tekst afar vel í þessum söngleik.

Sögusviðið er Reykjavík árið 1980, en þá var ég sjálfur aðeins ellefu ára. Framan af var ég diskómegin í tilverunni en fljótlega hneigðist ég fremur til pönks, enda mun frjórri stefna á þessum tíma. Man til að mynda eftir mér, líkast til þrettán ára, á tónleikum með Sjálfsfróun og Q4U í Tryggvagötuportinu. Bassaleikari Sjálfsfróunar lét duga að spila með einum streng í bassanum. Ég áræddi að spyrja hann hvers vegna. Svarið var að hinir strengirnir hefðu bara þvælst fyrir og þvi hefði hann tekið þá úr. Þetta þótti mikið pönk.

Eitt varð mér þó huleikið þegar ég gekk út af sýningunni í gærkvöld. Gömlu pönkararnir úr Rokki í Reykjavík hljóta að reita hár sitt og skegg (ef hárvöxtur leyfir) yfir tilhugsuninni að búið sé að stofnanavæða pönkið inn sjálft Þjóðleikhúsið.