þriðjudagur, 13. október 2009

Frystir úti - ári seinna

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að rifja upp helstu atburði síðastliðinn árs, því er ekki úr vegi að rifja hér upp fyrstu grein mína í The Guardian þennan dag fyrir ári síðan, en ástandið í samskiptum Íslendinga og Breta var slíkt á þessum dögum að athugasemdakerfi Guardian-vefsins sprakk vegna álagsins, greinin er hér: Frozen out.

Þegar ég rann yfir greinina sló mig fyrst hvað fátt hefur breyst á því ári sem nú er liðið.

mánudagur, 12. október 2009

Efnahagsvandi Austur Evrópu

Má til með að benda á góða grein eftir Thomas Mirow í The Guardian í dag um vandræði margra nýfrjálsra ríkja Austur-Evrópu í kreppunni.

Eftir gríðarlegan vöxt er fallið sömuleiðis hátt.

fimmtudagur, 8. október 2009

70 óspjallaðar meyjar og annar óhróður

Í morgun hlaust mér sú upphefð að fá yfir mig skæðadrífu staksteina Morgunblaðsins. Grjótkastarinn í Hádegismóum er þó ekki hittinn þennan morguninn. Efnislega er ég sakaður um að hafa hótað þjóðinni uppsögn á EES-samningnum samþykki hún ekki Icesave, sem ég á víst að vera alveg hreint sérstakur áhugamaður um að Íslendingar samþykki, að því er virðist af þeirri ástæðu að ég ku vera svo sólginn í embættismannastarf í stofnunum ESB.

Allt er þetta kolrangt. Í fyrsta lagi hef ég engum hótað. Í gær var ég inntur eftir því í fjölmiðlum hvað myndi gerast með EES-samninginn ef Íslendingar myndu hafna Icesave og segja sig úr efnhagsáætlun AGS. Ég svaraði sem rétt er, að þá myndi líkast til vera úti um ESB-umsóknina og að erfitt yrði að aflétta gjaldeyrishöftunum í bráð, það gæti svo aftur leitt til þess að EES-samningurinn myndi á endanum rakna upp. Þetta er samdóma álit flestra fræðimanna og útskýrt hér.

Ýmsir staksteinadritarar þessa þjóðfélags hófu auðvitað um leið að teygja, toga og rangtúlka ummæli mín og gera mér upp annarlegar hvatir. Ég var hins vegar einvörðungu að miðla þeirri þekkingu sem ég hef á evrópsku samstarfi eftir áratugs rannsóknir á þessu appírati, en samkvæmt staksteinum má það má víst ekki á Ísland i dag. Sannleikurinn er víst ekki af öllum álitinn sagna verður.

Í öðru lagi hef ég frá upphafi varað við þessum árans Icesave-samningi, hroðaleg hrákasmíð þessi nauðungarsamningur, sjá hér, hér og hér. Eins og hér má sjá lagði ég strax í upphafi til að settir yrðu afgerandi fyrirvarar við þennan ólánssamning, að vísu var svo gengið allt of langt í þeim efnum og málið eyðilagt í þinginu.

Í þriðja lagi hryllir mig hreinlega við þeirri tilhugsun að verða bjúrókrati í Brussel, það langar mig alls ekki. Á meðan ég má vera fræðimaður á Ísland þá vil ég það, ef ég má. Um skeið starfaði ég sem upplýsingafulltrúi í sendiráði ESB í Osló, mér leiddist og vissi um leið að ég hef engan áhuga á svoleiðis störfum, sagði þvi starfi mínu lausu og flutti heim. Síðan ég ég unnið að fræðistörfum og vil halda þeim áfram, ef ég má.

Í skæðadrífu staksteina fljúga fleiri og enn furðulegri hlutir. Á einhvern undarlegan hátt tekst grjótkastaranum í Hádegismóum að þvæla 70 óspjölluðum meyjum inn í spilið, sem ég er sagður hafa einhverja löngun til. Hvernig svarar maður eiginlega svona ummælum? Hvað er hér eiginlega á ferðinni?

Þetta er ekki eina sendingin sem ég hef fengið frá Morgunblaðinu eftir að blaðamenn óskuðu eftir áliti mínu á afdrifum EES-samningsins. Seinni partinn í gær barst mér nafnlaus póstur úr netfanginu frsend@mbl.is. Bréfritari fer fram á að ég þagni og endar reiðilestur sinn á eftirfarandi hvatningu til mín. „Geturðu ekki bara flutt og látið okkur í friði?“

Er þetta hótun? Hver ber ábyrgð á svona póstsendingum?

miðvikudagur, 7. október 2009

Drullukaka Icesave, AGS og EES

Umræður um Evrópumál geta verið flókin, myndin sem Íslendingar standa frammi fyrir í utanríkismálum er hvorki einsleit né einföld. Tengslin við Breta og Hollendinga vegna Icesave er partur af margþættri mósaíkmynd þar sem ESB-umsóknin, samskiptin við Norðurlöndin og EES-samninginn er einnig að finna. Þræðirnir þarna á milli eru ekki alltaf augljósir og stundum erfitt að feta sig eftir þeim.

Í dag hafa fjölmiðlar velt fyrir sér hvað myndi gerast varðandi ESB-umsóknina og EES-samninginn ef við myndum gefa Bretum og Hollendingum fingurinn og hafna Icesave einhliða. Ég var spurður um þetta í Fréttablaðinu og í Útvarpsfréttum Rúv. Ég sé að ýmsir hafa lagt út af ummælum mínum og aðrir rangtúlkað svo mest þeir mega. Það er eftir öðru í umræðu dagsins, lítið við því að segja.

En svarið við þessari spurningu er auðvitað ekki með öllu einhlítt, hins vegar er ljóst að eftir að gjaldeyrishöftin voru sett síðastliðið haust uppfyllum við ekki veigamikinn þátt EES-samningsins, þá hlið fjórfrelsisins sem snýr að frjálsu flæði fjármagns. Það er hárrétt hjá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, að höftin voru sett í fullu samráði við AGS og ESB.

En, það er nefnilega svolítið en í þessu máli eins og mörgum öðrum. Hvað gerist ef við hendum AGS út í hafsauga og höfnum Icesave einhliða? Þetta var það sem Fréttablaðið og Fréttastofa Rúv vildu vita. Um þetta var ég spurður. Þá er nefnilega komin upp önnur staða, þá erum við ekki lengur að vinna í samráði við viðsemjendur okkar.

Við slíkar aðstæður yrði ESB-umsóknin sett í einhverja frystikistuna í Brussel, það er held ég nokkuð augljóst. Og þar með verður einnig orðið ljóst að við munum ekki geta aflétt gjaldeyrishöftunum og uppfyllt EES-samninginn eins og okkur ber. Um leið hverfur sú réttlæting sem ESB hefur nú við að horfa í gegnum fingur sér með einmitt það, að við uppfyllum alls ekki EES-samninginn.

Þá verður það hlutverk framkvæmdastjórnar ESB að segja upp þeim hluta EES-samningsins sem nær til fjármálafrelsisins og þar með verður ekki lengur sú einsleitni sem krafist er í samningnum og hann gæti því hæglega raknað upp. Keðjuverkun fer af stað sem ómögulegt er að sjá fyrir endann á. Hættan er því raunveruleg, þetta er ekki bara eitthvað tuð út í loftið.

Öfugt við það sem þvælumeistarar þjóðmálaumræðunnar eflaust vilja láta í veðri vaka eru auðvitað miklu fleiri vafamál heldur en hér eru rakin, tengsl Íslands við umheimin eru hvorki alhvít né kolsvört. Stjórnmál eru list hins mögulega og því er alltaf til einhver lausn ef vilji er fyrir hendi. Áhyggjur mínar vakna ekki síst af því að mér sýnist einmitt að sjálfan viljann sé að þverra, - bæði hér heima og einnig erlendis.

Og þá stendur nú heldur betur upp á ýmsa pótintátana hér heima að svara þeirri spurningu, hvað þá?

Ný bók: Frá Evróvisjón til evru - allt um Evrópusambandið

Á heimasíðu útgefanda míns, Veraldar segir: "Í dag kemur út hjá Veröld bókin Frá Evróvisjón til Evru - Allt um ESB eftir Eirík Bergmann dósent við Háskólann á Bifröst og forstöðumann Evrópufræðaseturs.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er eitthvert umdeildasta mál síðari tíma. En hvað er þetta ESB? Hver er saga þess? Hvernig er það byggt upp? Hvert er eðli Evrópusamvinnunar? Hvaða áhrif hefur Evrópusambandið á líf, störf og viðskipti Íslendinga nú þegar – og hvað breytist ef ákveðið verður að ganga í sambandið?

Um hvað snýst samvinna þessara 27 aðildarríkja þar sem býr hálfur milljarður manna og talar 89 tungumál?

Íslendingar verða á næstunni að gera upp hug sig sinn til ESB. Bókin Frá Evróvisjón til evru eftir Eirík Bergmann hefur að geyma allt sem þú vildir vita um Evrópusambandið en þorðir ekki að spyrja um; bók sem á erindi inn á hvert heimili í landinu.

Á bókarkápu er vitnað til umsagna tveggja lesenda bókarinnar.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir: "„Liprasti texti sem Íslendingur hefur skrifað um ESB og fjandi skemmtilegur aflestrar. Á köflum einsog leiftrandi spennusaga."

Svanhildur Hólm Valsdóttir lögfræðingur segir: "Lipurlega ritað yfirlit um ESB, aðgengilegt g yfirgripsmikið, eftir höfund sem er ástríðufullur hugamaður um alþjóðasamvinnu.""

Ég er í viðtölum við nokkra fjölmiðla í dag, meðal annars í tengslum við efni bókarinnar.

"Skammaður af ESB-sinnum", segir Mbl.is

"Íslendingar í klandri í Flandri", segir Morgunblaðið

"EES-samningurinn í hættu falli Icesave", segir Fréttablaðið og Vísir.is

"EES-samningur kann að vera í hættu", segja fréttir Útvarps.


föstudagur, 2. október 2009

Í dag ráða Írar framtíð ESB

Í dag ganga Írar í annað sinn til kosninga um nýjan Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins. Niðurstaða kosninganna mun ráða úrslitum um hvort takist að greiða úr þeim stjórnlagavanda sem varð til í Evrópusambandinu þegar kjósendur í Frakklandi og Hollandi afþökkuðu stjórnarskrársáttmála ESB sumarið 2005 - sáttmála sem leiðtogar aðildarríkjanna höfðu þá þegar unnið að í nokkur ár.

Segja má að Lissabon-sáttmálin sé eins konar útvötnuð útgáfa af stjórnarskrársáttmálanum sáluga. Búið er að taka út allar tilvísanir í sameiginleg tákn og annað það sem einkennir stjórnarskrár almennt, en breytingar á stofnunum og ákvarðanatökukerfi halda sér hins vegar nokkurn vegin í samræmi við það sem menn ætluðu sér í stjórnarskrársáttmálanum.

Írland er eina ríki ESB þar sem stjórnarskrá kveður beinlínis á um að setja verið alla aþjóðasáttmála sem ríkið gerir í dóm kjósenda, því er framtíð Evrópusambandsins nú enn og aftur í höndum Íra en ekki borgara annarra ESB-ríkja.

Kjörstaðir loka klukkan tíu í kvöld og talning hefst í fyrramálið, Ráðgert er að úrslit liggi fyrir annað kvöld. Sjá frétt Irish times um atkvæðagreiðsluna hér.



fimmtudagur, 1. október 2009

Vandmeðfarin lánamál

Útspil framsóknarmanna á Íslandi og í Noregi um ofurlán til Íslands, óháð afgreiðslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er svolítð óljóst og að sumu leyti eilítið undarlegt. Tilboðið kemur ekki frá norsku ríkisstjórninni heldur frá óbreyttum þingmanni í minnsta stjórnarflokknum, Per Olaf Lundteigen, talsmanni Miðflokksins í fjármálum. (Miðflokkurinn sækir nú á um aukin áhrif í nýrri ríkisstjórn sem enn hefur ekki verið mynduð eftir nýliðnar kosningar, sömu flokkar ætla sér að vinna saman áfram).

En allavega, öfugt við fréttafluttnig hérlendis hefur Lundteigen, samt sem áður hvergi sagt - svo ég hafi heyrt - að Noregur sé tilbúinn til að afgreiða slíkt lán óski íslenska ríkisstjórnin eftir því. Þvert á móti segir hann í viðtali ABC fréttaveituna í Noregi að tilboðið sé einvörðungu sett fram fyrir hönd Miðflokksins, ekki fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Á norsku svarar hann svona: "På vegne av Senterpartiet sa jeg til Thórallsson at vi er villige til å gi et betydelig lån opp til 100 milliarder norske kroner, til 4 prosent rente og fem års avdragsfrihet."

Leiðtogar norsku ríkisstjórnarinnar, þau Jens Stoltenberg, forsætisráðherra og formaður Verkamannaflokksins, og Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra og formaður Vinstri flokksins, hafa ekki tekið undir orð Lundteigen. Þvert á móti hafa þau bæði sagt að norska ríkisstjórnin muni einvörðungu veita Íslandi lán að undangenginni afgreiðslu AGS, sjá til að mynda hér.

Eigi að síður er vitað að þreifingar hafa undanfarið farið fram milli íslenskra og norskra stjórnvalda um einhliða aðstoð ef allt um þrýtur, - þótt upphæðin í þeim viðræðum hafi raunar ekki verið í nálægð við það sem Lundteigen nefnir.

En semsé, það sem mestu máli skiptir nú, er að skemma ekki málið áður en það er fullþroskað. Lánafyrirgreiðsla til Íslands er pólitískt afar viðkvæmt mál fyrir norsk stjórnvöld, sem eru eins og á milli steins og sleggju: Á alþjóðavettvangi vilja þau sýna að þau standi með alþjóðlegum leikreglum sem skuldbinda íslensk stjórnvöld til að ganga frá Icesave málinu (utan Íslands eru svotil allir sammála um það) en heima fyrir hefur almenningur í Noregi gjarnan viljað veita Íslendingum, frændum í neyð, hjálparhönd.

Stjórnmál eru list hins mögulega og um þetta mál alveg sérstaklega er afar vandratað. Persónulegur vinskapur er á milli leiðtoga VG á Ísland og SV í Noregi, Steingrímur J Sigfússon og Kristin Halvorsen eru í reglulegum samskiptum. Samt sem áður hefur ekki tekist að afgreiða málið.Vonandi fara samskiptin við norsk stjórnvöld ekki í hnút þótt málinu hafi nú verið þjófstartað í fjölmiðlum.Við sjáum til.

Uppfært kl. 13:55:

Og nú hefur það gerst sem ég óttaðist, raunverulegir fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar hafa neyðst til að bera fréttina um loforð Lundteigen til baka og allt komið í hnút á nýjan leik.